141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

staða sparisjóðanna.

[14:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í fjölda ára og áratuga fyrir hrun höfðu sparisjóðirnir mjög mikilvægt hlutverk. Þeir voru mjög nálægt viðskiptavininum, mikið nær en viðskiptabankarnir, og þekktu betur þarfir einstaklinga. Þeir voru meira bankar fyrir einstaklinga en síður fyrir fyrirtækin. Þeir höfðu með sér gott samstarf og var Spron burðarásinn í því á sínum tíma. Þess vegna voru það mikil mistök hjá hæstv. ríkisstjórn þegar hún lét Spron fara á hausinn, það var óþarfi vegna þess að það hefði mátt ná samkomulagi við kröfuhafa og halda bankanum gangandi. Þá hefði geymst sú viðskiptavild sem fólst í Spron sem burðarási samstarfsins. En það varð ekki og þess vegna eiga sparisjóðirnir nú við ramman reip að draga.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er meginhluti stofnfjár sparisjóðanna í eigu ríkisins eða stór hluti. Það er ekki sparisjóður í mínum huga. Það þarf að skapa aftur traust meðal einstaklinga á stofnfé vegna þess að stjórnendur sparisjóðanna stjórnuðu þeim ekki nægilega vel að mínu mati, þess vegna fóru þeir unnvörpum á hausinn, voru of glannalegir í fjárfestingum og slíku. Ég held að fyrsta verkefnið sé að skapa traust, það þarf ríkisstjórnin að gera þannig að einstaklingar séu tilbúnir til að kaupa aftur stofnbréf. Síðan þarf að tryggja að sparisjóðirnir séu nægilega margir og öflugir, að þeir geti haft með sér samstarf og veitt þá þjónustu sem viðskiptavinurinn í dag krefst, heimabanka og annað slíkt, en það þarf heilmikið samstarf til þess.

Ég vona að það takist að skapa þetta traust á einhverju árabili og að sparisjóðirnir fái aftur það góða hlutverk sem þeir höfðu og voru svo nálægt kúnnanum. Það er náttúrlega fyrst og fremst starfsfólkinu að þakka.