141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Tökum strandveiðarnar fyrst. Hv. þingmanni er vel kunnugt um það að ég er ekki í framboði fyrir næstu kosningar, hef ekki möguleika á að setjast á þing þó að ég sé í heiðurssæti (Gripið fram í.) já, þess vegna ætla ég að fara yfir það. Ég hef auðvitað skoðun á málinu. Við skulum fara aðeins yfir það.

Í fyrsta lagi, þegar dagakerfið var lagt niður á sínum tíma var ég sveitarstjórnarmaður en ekki alþingismaður. Ég var algerlega á móti því. Þegar strandveiðarnar voru settar á, hvernig var umræðan þá? Ég benti á það sem þyrfti að gera, akkúrat það sem hv. þingmaður hefur verið að gagnrýna oft í máli sínu þegar menn selja aflann úr byggðarlögunum. Hvað lagði ég til að yrði gert? Það var að þeir sem væru búnir að selja frá sér aflaheimildirnar fengju ekki að fara inn í strandveiðarnar. Ekki var hlustað á það. Var það ekki eitthvað sem við gátum verið sammála um? Þeir sem voru búnir að selja sig út úr greininni áttu stærstu og öflugustu bátana og höfðu mestu reynsluna, en strandveiðar áttu að vera fyrir nýliðun — hvað gerðist? Stjórnarmeirihlutinn vildi ekki taka mark á því. Ég margfór yfir það í ræðustól: Við eigum að gera þetta svona, þá getum við kannski skapað einhverja nýliðun. Nei, það varð hins vegar ekki niðurstaðan. Ekki var hlustað á það þannig að þeir sem voru fyrir og búnir að selja sig út úr greininni voru sterkastir í strandveiðunum.