143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem kom fram í fyrra svari mínu áðan. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns er heildarendurskoðun í gangi, við þekkjum lögin með það. Menn geta kallað þetta innleiðingarfrumvarp eða hvaða heiti sem þeir vilja gefa því, en það eru lög í landinu sem gera ráð fyrir því að svona sé vinnulagið í kringum þetta. Ég get ekki skýrt það betur en ég gerði áðan, bæði í ræðu minni og svari. Um þetta var samstaða og eins og kemur fram í greinargerðinni var samþykkt á síðasta kirkjuþingi að þetta væru ákveðin forgangsverkefni og var samstaða á kirkjuþingi um að mikilvægt væri að óska eftir því við löggjafann að hann mundi taka á þeim þrátt fyrir að ekki væri farið í heildarendurskoðun.

Ég er ekki þátttakandi á kirkjuþingi og get ekki upplýst nákvæmlega um umræður þar en þetta barst ráðuneytinu þannig að um það væri full sátt og vilji kirkjuþings og ósk að ráðherra mælti fyrir slíku frumvarpi. Það er ástæðan fyrir því að þetta mál er komið fram hér og ég held að ég hafi líka farið ágætlega yfir það í ræðu minni áðan.