144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsályktana.

[15:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ákvörðunin um að sækja um aðild að Evrópusambandinu var einhver stærsta ákvörðun lýðveldissögunnar og að sjálfsögðu var það þingið sem tók þá ákvörðun. Það að slíta viðræðunum við Evrópusambandið er að margra mati jafnvel stærri ákvörðun og meira skemmandi. Að sjálfsögðu á þingið að taka ákvörðun um það mál og reyndar er það svo stórt að ég held að nánast allir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafi lofað því fyrir síðustu kosningar að þjóðin tæki þá ákvörðun hvort viðræðunum yrði slitið eða ekki. Svo stór var sú ákvörðun álitin og það er alveg klárt mál að þá ákvörðun að slíta viðræðunum er ekki hægt að taka í einhverju bréfi sem hæstv. utanríkisráðherra sendir út í heim. Þannig eru ákvarðanir ekki teknar á Íslandi og það er ótrúlegt að við skulum núna vera að deila um það hvernig við tökum svona stórar ákvarðanir. Allir ráðherrar í ríkisstjórn verða að svara því hvaða augum þeir líta þingræðið og lýðræðið á þessum tímapunkti.

Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða augum lítur hann þingsályktanir?

Á síðasta kjörtímabili, svo ég nefni dæmi, var samþykkt mjög umdeild þingsályktun um að staðgöngumæðrun skyldi sett í lög. Hún skapaði hér mikla umræðu. Velferðarráðherra, sem nú er hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson, var falið að setja í lög á Íslandi að staðgöngumæðrun skyldi leyfð. Tökum þetta dæmi. (Forseti hringir.) Lítur ráðherra svo á að hann sé óbundinn af þeirri ákvörðun Alþingis eða ekki?