145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:44]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að kalla eftir þessari mikilvægu umræðu um öryggis- og varnarmál. Í dag horfum við upp á breytta heimsmynd, bæði pólitískt og landfræðilega, og aukna hernaðarlega spennu í heiminum. Það er vaxandi hryðjuverkaógn með auknum áhrifum hryðjuverkasamtaka eins og Daesh og óstöðugleika í löndunum við Austur-Miðjarðarhaf og Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa hrundið af stað öldu innflytjenda til nágrannasvæða og valdið víðtækum öryggisógnum í Miðausturlöndum.

Varnaráætlanir þurfa eðli málsins samkvæmt að vera í reglulegri endurskoðun og fjallar 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt aðildarríki í NATO skuli talin árás á öll. Þetta er skýr og ófrávíkjanlegur þáttur NATO. Í því felst mikil trygging fyrir litla þjóð.

Þess má geta að NATO-þingið, þar sem ég er formaður Íslandsdeildar, samþykkti nýverið skýrslu um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum sem undirstrikar aukið landfræðipólitískt mikilvægi svæðisins þar sem áhrif loftslagsbreytinga hafa meðal annars gert auðlindir þess aðgengilegri og opnað fyrir nýjar og mikilvægar siglingaleiðir.

Þá hefur Ísland verið leiðandi í málefnum er varða vinnu Atlantshafsbandalagsins um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, um konur, frið og öryggi. Þar hefur mikið áunnist og eftirfylgni okkar og framlag hefur vissulega skipt máli, en dyggur stuðningur við málefnið á ráðherra- og leiðtogafundum hefur þó skipt sköpum. Það er hluti af varnarsamningi Íslands við Bandaríkjamenn frá 1951 að þeir komi hingað og sinni vörnum. Ef bandaríski herinn hefur áhuga á meiri háttar viðveru hér á landi þarf að ræða það við íslensk stjórnvöld og til þess hefur ekki komið.

Við sem samfélag þurfum að vera vakandi fyrir breytingum í (Forseti hringir.) alþjóðamálum og fagna ég því umræðu okkar hér í dag.