145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna.

543. mál
[15:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd bókun um aðild Lýðveldisins Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna sem undirrituð var 22. júní 2015.

EFTA-ríkin hófu í febrúar 2012 viðræður um fríverslunarsamning við fjögur ríki Mið-Ameríku, þ.e. Kostaríka, Panama, Gvatemala og Hondúras. Í desember sama ár lauk viðræðum við Kostaríka og Panama. Fríverslunarsamningur við þau tvö ríki var undirritaður í júní 2013 og tók samningurinn gildi í september 2014 að undangengnu hefðbundnu fullgildingarferli.

Hins vegar tókst ekki að ljúka viðræðum við Gvatemala og Hondúras á sama tíma. Viðræður um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningnum héldu hins vegar áfram og lauk þeim í október 2014. Aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna mun hafa í för með sér bættan aðgang íslenskra fyrirtækja að mörkuðum í Gvatemala og bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja þar.

Aðildin er jafnframt liður í því sameiginlega verkefni EFTA-ríkjanna að bæta markaðsaðgang fyrirtækja þeirra að mörkuðum víðs vegar um heim með gerð fríverslunarsamninga. EFTA-ríkin hafa gert sameiginlega 25 slíka samninga við 36 ríki eða ríkjahópa.

Í þingsályktunartillögunni er gerð grein fyrir helstu efnisþáttum fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna sem og ákvæðum bókunar um aðild Gvatemala að samningnum. Þar kemur meðal annars fram að við aðildina munu tollar falla niður við innflutning til Gvatemala á sjávarafurðum og langflestum iðnaðarvörum. Niðurfelling tollanna fer þó að hluta til fram á allt að 15 ára aðlögunartímabilum.

Hvað landbúnaðarvörur varðar þá falla tollar niður af útflutningi frá Íslandi á lambakjöti, lifandi hestum og hrossakjöti auk þess sem tollar falla niður eða lækka af ýmsum öðrum unnum og óunnum landbúnaðarafurðum.

Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur auk ákvæða um vöruviðskipti ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála.

Enginn útflutningur hefur verið frá Íslandi til Gvatemala og innflutningur frá Gvatemala hefur jafnframt verið lítill og nam þannig einungis 54 millj. kr. á síðasta ári. Með lækkun og niðurfellingu tolla skapast betri aðstæður fyrir viðskipti milli landanna.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.