149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:44]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir ítarlega, góða og traustvekjandi yfirferð á þessu mikla og alvarlega máli. Það kemur svo sem ekki á óvart, en það gleður mig að heyra að þessi niðurstaða verði tekin alvarlega og áhersla hæstv. ráðherra sé á að tekist sé á við þetta mál svo sómi sé að.

Það er ljóst, eins og fram kom í málinu, að það er ekki bara dómurinn sjálfur sem vekur athygli heldur hver viðbrögð okkar eru við honum. Ég verð að segja, og það hefur svo sem verið komið inn á það hér af öðrum þingmönnum, að mér finnst allt að því hrollvekjandi í ljósi þeirra tíma sem við lifum á nú hve fljótt þeir talsmenn stjórnarinnar sem á annað borð tjáðu sig í upphafi fóru í það að gagnrýna Mannréttindadómstólinn, ekki endilega niðurstöðu dómsins heldur dómstólinn sem slíkan, að hann ætti ekki lögsögu hér og það að hlíta niðurstöðu hans væri einfaldlega að gefa eftir fullveldi okkar. Það er algjörlega galin nálgun og heitir eiginlega á mannamáli að menn vilji vera frjálsir undan afskiptum Mannréttindadómstólsins til að hefta mannréttindi borgara sinna, svo ég túlki þau orð í sinni ýtrustu mynd, sem ég held reyndar að hafi ekki verið meiningin. En þetta eru alvarleg orð.

Mig langar í fyrri ræðu minni að spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að hún sagði áðan að verið hefði í undirbúningi minnisblað á þeim mánuðum sem málið var í meðferð dómstólsins, um mögulegar niðurstöður, mögulegar afleiðingar og möguleg viðbrögð. Hvað fól þetta minnisblað í sér varðandi viðbrögð stjórnvalda? Ég get ekki ímyndað mér að það hafi í alvöru verið þannig að á minnisblaðinu hafi staðið: Tapist málið, förum við í Mannréttindadómstólinn.