149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[14:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir svarið og góðar útskýringar. Ég velti því fyrir mér hvort þetta minnisblað sé eitthvað sem við gætum fengið að hafa með vegna þess að það eru fleiri sem eru að svara fyrir málið. Að þessari spurningu fram settri ætla ég að lýsa því yfir að þingflokkur Viðreisnar mun að sjálfsögðu leggja sitt af mörkum — umbeðinn sem og óumbeðinn — til að koma þessum málum áfram og leysa þau þannig að sómi sé að.

Ég er með spurningu núna. Hæstv. ráðherra talaði um það áðan að þessi sérfræðingahópur væri kominn til að vinna úr málunum. Ég velti fyrir mér, þá kannski í ljósi þess sem nú er uppi, hvort gegnsæi verði í þeirri vinnu. Eru tímasetningar eða eitthvað sem hægt er að fylgjast með? Mun niðurstaðan, þegar hún kemur, koma mönnum á óvart? Er hægt að vinna þetta þannig að þingið og aðrir tilfallandi geti sem best stillt saman strengi sína í þessum málum?

Ég ætla ekki að gera lítið úr málinu sjálfu, svo sannarlega ekki, en það er af þeirri stærðargráðu, snertir þau svið mannlífsins (Forseti hringir.) og samfélagsins, að það skiptir gríðarlegu miklu máli að viðbrögð verði samstillt, að menn fari ekki af stað með eitthvað óíhugað og eyði síðan næstu dögum og vikum í að taka það til baka eða leiðrétta það.