150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

gjaldþrotalög og greiðslustöðvun.

[11:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í lögum um gjaldþrotaskipti frá 1991 er mælt fyrir um að skuldarar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, sem eigi í verulegum fjárhagsörðugleikum og vilji freista þess að koma nýrri skipan á fjármál sín geti leitað heimildar til greiðslustöðvunar. Í greinargerð með beiðni um greiðslustöðvun skal m.a. koma fram ítarleg greinargerð skuldarans um hvað valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hans, í hverju þeir felist, hvernig hann hyggist leysa úr þeim með heimild til greiðslustöðvunar og hvern hann hafi ráðið sér til aðstoðar. Það er því alls ekki einfalt að óska eftir greiðslustöðvun og uppfylla þarf ströng skilyrði.

Í 2. mgr. 12. gr. laganna er talað um þau atriði sem gera það að verkum að héraðsdómara er skylt að synja um heimild til greiðslustöðvunar. Þannig beri að synja um greiðslustöðvun ef ráðagerðir skuldarans um ráðstafanir eru ekki taldar raunhæfar eða líklegar til að koma nýrri skipan á fjármál hans. Með öðrum orðum er úrræðinu um greiðslustöðvun ætlað að leysa ástand þar sem skuldari ræðst í tilteknar aðgerðir til að leysa úr fjárhagsörðugleikum.

Í dag erum við stödd í fordæmalausum aðstæðum í þjóðfélaginu vegna farsóttar og ný staða kemur upp nánast á hverjum degi. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er nánast ógerlegt fyrir fyrirtæki og einstaklinga að tilgreina raunhæfar aðgerðir til að fá samþykkta greiðslustöðvun eins og lögin kveða á um miðað við ástandið eins og það er og óvissuna fram undan.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að núverandi ástand í samfélaginu falli undir framangreind skilyrði laganna, þ.e. að fyrirtæki og einstaklingar sem verða fyrir tímabundnum tekjumissi vegna Covid-19 og aðgerða stjórnvalda uppfylli skilyrði til að sækja um greiðslustöðvun? Geta fyrirtæki og einstaklingar sótt um greiðslustöðvun á grundvelli farsóttarinnar Covid-19?