150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp byggir á samkomulagi sem ég undirritaði fyrir hönd ríkisstjórnar við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Eins og staðan er í dag sæta tæplega 4.200 einstaklingar sóttkví að tilmælum sóttvarnalæknis. Það var nauðsynlegt að koma til móts við atvinnulífið og verkalýðshreyfingu um að tryggja afkomu þeirra sem eru settir í sóttkví og eru þar með að sinna skyldu sinni gagnvart almennum sjónarmiðum sóttvarnalæknis um að hefta útbreiðslu veirunnar.

Ég fagna því mjög að þetta mál sé hér komið til afgreiðslu. Það skiptir verulegu máli en til lengri tíma litið skiptir að sjálfsögðu máli að við setjum varanlegar reglur um það hvernig eigi að haga greiðslum vegna tilmæla um sóttkví eins og flest önnur Norðurlönd eru með. Slík ákvæði voru ekki í íslenskri löggjöf en ég þakka hv. velferðarnefnd fyrir vinnuna, hæstv. félags- og barnamálaráðherra sem lagði málið fram sem og aðilum vinnumarkaðarins fyrir að hafa leyst þetta mál með farsælum hætti með okkur stjórnvöldum.