Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:38]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki rétt. Atvinnuleysisbætur hækkuðu minna en bætur almannatrygginga núna síðustu áramót. Þú þarft bara að fletta þessu upp í reglugerðum sem ráðherra hefur sett og bera það saman við hvernig almannatryggingarnar hafa þróast. Og nú á að endurtaka leikinn hér, reyndar með miklu groddalegri hætti og gefa þeim sem reiða sig á atvinnuleysisbætur í rauninni enga beina hækkun meðan bætur hinna hækka um 3%, sem er bara flýting á þeirri lögbundnu hækkun sem mælt er fyrir um í 69. gr. laga um almannatryggingar. Ég sé ekki alveg sanngirnina í þessu. Ætlar einhver að halda því fram að þessi hópur, atvinnuleitendur, sé í eitthvað sérstaklega sterkri stöðu til að taka á sig hækkandi matvælaverð, stóraukinn húsnæðiskostnað, hækkandi eldsneytisverð? Nei, þetta er bara mjög vond félagsmálapólitík. Finnst hv. þingmanni þetta í alvörunni skynsamlegt? Við viljum þrýsta á að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar, ef ekki með þeirri breytingartillögu sem hér er lögð til, þá með reglugerðarbreytingu strax eftir að þetta frumvarp hefur verið samþykkt.