Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er á þessu nefndaráliti og ég skal alveg viðurkenna að maður fær kuldahroll niður hrygginn, maður fær gæsahúð og maður fer að svitna um leið og farið er að hræra í þessu kerfi. Þetta er skelfilegt kerfi og við vitum að núna 1. júní fá 20.000 manns greitt til baka, en 30.000 manns þurfa að borga til baka. Það sýnir okkur bara hversu fáránlegt þetta kerfi er. En ég styð öll góð mál í þessu kerfi.

En það sem ég vil spyrja hv. þingmann um er í sambandi við Öryrkjabandalagið sem bendir á að þessi 3% séu um 8.400 kr. Við erum með tillögu í Flokki fólksins um 4,5%. Hvers vegna settum við þá tillögu fram? Jú, það er vegna þess að það kemur fram hjá Öryrkjabandalaginu að greiddur var hagvaxtarauki 1. apríl upp á 10.500 kr. Með því að hafa þetta 4,5% þá náum við 12.500, það er 2.000 kr. meira, og ef við hefðum það afturvirkt til 1. janúar myndi það þó alla vega skila því að það næði verðbólgu og færi ekki í kjaraskerðingu miðað við það sem er á almenna vinnumarkaðnum. Ég spyr: Gætum við ekki verið sammála um að gera eitthvað svoleiðis?