Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem verið er að gera hérna, auk þess að hækka bætur almannatrygginga um 3%, er að einnig er verið að hækka barnabætur og hækka frítekjumörk vegna húsnæðisstuðnings, þannig að það að samanlögðu mun auðvitað skipta gríðarlega miklu máli fyrir stóran hóp fólks. En líkt og ég sagði í framsöguræðu minni með nefndarálitinu þá held ég að á meðan hér er verðbólga þurfi áfram að fylgjast með þróun mála. Þá þurfum við að hafa augun sérstaklega á tekjulágu fólki því að við vitum að það hefur minnsta svigrúmið til að bregðast við. Og líkt og segir í nefndaráliti minni hlutans þá eigum við einmitt að vera með fókusinn á aðgerðum sem eru sniðnar að þeim sem minnst þol hafa til að takast á við verðbólguna. Þannig að þetta hér er akkúrat í þá átt.