Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að halda vöku sinni hvað þennan þátt frumvarpsins varðar, þetta skerðingarhlutfall í húsnæðisbótakerfinu, og fyrir að berjast með kjafti og klóm fyrir úrbótum á þessum þætti frumvarpsins meðan ég sat sveittur heima við að skrifa nefndarálit fyrir okkur. Svona er þetta. Menn skipta kannski svolítið með sér verkum þegar verið er að afgreiða þingmál á hundavaði. En það sem mér þætti fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni væri — það virðist hafa orðið einhver handvömm við lokavinnslu breytingartillögunnar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað það var nákvæmlega sem hv. þm. Hafdís Hrönn ætlaði að hanka mig á áðan, hvort hv. þingmaður geti útskýrt það á mannamáli hvað nákvæmlega gerðist þarna við útbýtingu breytingartillögurnar og hverjar afleiðingarnar hefðu getað orðið af því ef hv. þingmaður og fleiri hefðu ekki einmitt tekið eftir þessu og látið laga þetta.