152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara svona vel yfir þetta. Þetta er kannski einmitt ofboðslega gott dæmi um þær flækjur sem geta komið upp þegar verið er að afgreiða þingmál á harðaspretti. Ég skil ekki enn þá hvers vegna það þurfti endilega að leggja þetta frumvarp fram seint í maí. Það skemmir auðvitað bara fyrir þinglegri meðferð þess og gerir það að verkum að fólk verður hrætt við breytingartillögur sem eru kannski fullkomlega rökréttar og mikilvægar, vegna þess að mistök geta orðið. Þetta eru bara mjög vond vinnubrögð. Við erum sett í þessa stöðu vegna þess að ríkisstjórnin leggur fram málið á síðustu stundu og setur tímapressu á Alþingi. Og auðvitað vill enginn þvælast fyrir því að þetta mál nái fram að ganga og að bætur og aðrar fjárhæðir hækki út frá þessum breyttu ákvæðum í lögunum núna um næstu mánaðamót. Auðvitað vill enginn þingmaður hafa það á samviskunni þannig að við sitjum öll í súpunni saman í einhverju skítamixi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála þessu og að þetta sé einmitt alveg fullkomið dæmi um hvers vegna löggjafinn þarf að gefa sér meira en tvo, þrjá daga í að taka fyrir frumvörp þar sem kannski er verið að breyta alls konar heildarlögum með bandormi.