Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar aðeins að fara yfir breytingartillögu hv. þingmanns varðandi lífeyrinn sem lagt er til að sé 3% hækkun í þessu frumvarpi, en hv. þingmaður leggur til 4,5% hækkun, sem er bara mjög gott. Ástæðan fyrir því sérstaklega — maður veit ekki alveg hvort 3% er nægileg hækkun til að bregðast við þessari verðbólguþróun, í rauninni ekki, og þá að sama skapi höfum við ekki hugmynd um hvort 4,5% sé nægileg hækkun eða of mikil eða hvað. En út frá því sem ég hef skoðað varðandi lög um almannatryggingar, þróun á 65. gr. almannatryggingalaga, um það hvernig kjör þeirra sem eru með lífeyri samkvæmt þeirri grein á undanförnum rúmum 20 árum, er sú prósenta alla vega langt frá því að ná að bæta upp þá kjaragliðnun sem hv. þingmaður var að tala um. Hún verður seint of há sú prósenta sem manni reiknast til að kjaragliðnunin — miðað við kjör lífeyrisþega þegar lögin um almannatryggingar voru sett, miðað við daginn í dag þurfi að hækka grunnlífeyrinn um 50–60%. Þannig að 4,5% er dropi í hafið en vissulega góður dropi í hafið miðað við núverandi ástand.

Mig langar aðeins að fjalla um nákvæmlega þessa góðu tillögu hv. þingmanns og hversu nauðsynlegt skref hún er í áttina að því að brúa þessa kjaragliðnun, því að í fjárlögum þessa árs var verklagi í fyrsta sinn breytt. Þá var tekið tillit til þess að verðbólga hækkaði meira en verðbólguspá samkvæmt síðasta ári og þeim mismun bætt við lífeyri fyrir þetta ár. En vandamálið var að launaþróun fyrir síðasta ár var mun meiri en verðbólgan þannig að það varð samt kjaragliðnun þrátt fyrir þá nýju leiðréttingu sem var gerð þá.