152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

tekjuskattur o.fl.

678. mál
[16:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég er auðvitað alveg sammála. Vandamálið liggur oft í því hvernig kerfið virkar vegna þess að við hækkum alltaf þennan hóp um áramót og þá reiknum við afturvirkt. Þá er verið að taka árið afturvirkt; launahækkanir, verðbólgu. En við vitum ekkert hvað verður framvirkt. Við vitum bara hvernig staðan er um áramótin og við vitum hvernig hún er búin að vera yfir árið. Þess vegna er kjaragliðnun alltaf að aukast, vegna þess að tilhneigingin er — t.d. þegar 7% hækkun varð á launavísitölunni þá hækkuðu þeir almannatryggingar um 3,6%. Og núna síðast var rosalegur vilji til að bæta, þá bættu þeir 0,8% við. En þetta dugar ekki til. Þess vegna erum við með þessa tillögu hérna um 4,5% hækkun og við leggjum til að hún gildi frá 1. janúar afturvirkt vegna þess að verðbólgan er búin að vera á fleygiferð síðan þá og þessi 3% duga bara alls ekki. Það kemur líka skýrt fram að ef við viljum minnka bilið og stoppa kjaragliðnunina milli láglaunafólks út frá þessum hagvaxtarauka sem það fékk, þá þarf 10.500 kr., en þetta eru ekki nema 8.000 kr. Við erum með 12.590 kr, eitthvað svoleiðis, þannig að þarna munar einhverjum 2.000 kr. sem myndu þá jafna eitthvað. Þannig að ég myndi segja að allar líkur séu á að þetta myndi stöðva kjaragliðnunina, þetta gætu verið, svona í fyrsta skiptið, nokkrir aurar í plús.