153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

aðgerðir varðandi orkuöflun og orkuskipti.

[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég lít nú þannig á að bæði á fundi Landsvirkjunar og á iðnþingi hafi nú verið breytt ákall, ekki endilega eingöngu til ríkisstjórnarinnar heldur ekki síður hingað til þingsins og til sveitarstjórna, til allra þeirra sem geta haft hér áhrif. Við skulum hafa það í huga í þessu sambandi að það var ekki til hjálpa þróuninni undanfarinn áratug að þingið botnaði ekki meðferð rammaáætlunar hér fyrr en árið 2022. Það var tíu ára tímabil sem þingið gat ekki komist að niðurstöðu en það var þó í þessari ríkisstjórn sem málið kláraðist og við komumst inn í næsta áfanga. Hvað sem sagt er um þessa ríkisstjórn og kyrrstöðu í þessum efnum þá verður það ekki af þessari ríkisstjórn tekið að það var mjög stór áfangi og þar voru svör veitt um þá orkukosti sem voru þar undir. Þeir voru flokkaðir og afgreiddir héðan út. Það skiptir máli. Sömuleiðis þegar sagt er að ekkert hafi verið að gerast þá vil ég vekja athygli á því, sem reyndar kom fram á fundi Landsvirkjunar, að Landsvirkjun hefur verið í hverju verkefninu á fætur öðru undanfarin ár. Það er ýmislegt búið að gerast og ekki oft í sögu Landsvirkjunar sem fyrirtæki hefur verið í tveimur verkefnum á sama tíma eins og átt hefur við t.d. þegar við vorum með verkefni í gangi á Þeistareykjum, Búðarhálsi og sömuleiðis síðan farið í Búrfellsvirkjun II. Þetta er hvert fyrir sig mikilvægt verkefni og núna næst verður farið í Hvammsvirkjun. Það sem ég held að bíði okkar á næstu árum að taka ákvarðanir um eru frekari áfangar í rammanum. Við þurfum að leiða fram regluverk fyrir vindorku á Íslandi og það er að störfum starfshópur á vegum orkumálaráðherra sem skilar von bráðar útlínum að regluverki og leggur vonandi með því grunn að samtali í samfélaginu um það hvaða leið við viljum feta í því. Ég horfi þannig á málin að við munum ekki ná í mark með markmið okkar um að draga úr losun án þess að vindurinn verði virkjaður.