153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

einkarekstur og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

[16:04]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum búið almennt við gott opinbert heilbrigðiskerfi þar sem allir eiga sama rétt til þjónustu óháð efnahag og stöðu. Það er samt áhyggjuefni hve langir biðlistar eru eftir aðgerðum, að fólk standi frammi fyrir því að leggja út í mikinn kostnað til að komast í aðgerðir utan almenna heilbrigðiskerfisins. Það eru fjárútlát sem sum ráða einfaldlega ekki við. Við viljum ekki samfélag þar sem samfélagssáttmáli um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu verður rofinn. Við sjáum í fjölmiðlum að stjórnendur ríkisrekinna sjúkrahúsa óttast að sjúkrahúsin veikist ef sérfræðingar fara í enn ríkari mæli til einkarekinna fyrirtækja. Forstjóri Landspítalans hefur þannig varað við því að farið verði stjórnlaust í átt til einkavæðingar. Þessar stofnanir búa við alvarlegan mönnunarvanda. Bent hefur verið á vanda LSH í þessu sambandi sem er ekki síst skortur á röntgenlæknum og skurðhjúkrunarfræðingum og skortur á hjúkrunarfræðingum til að manna legudeildir, tóm legupláss og ónýttar skurðstofur. Gott starfsfólk og fjölbreyttar aðgerðir er grundvöllur þess að sjúkrahúsin okkar séu góðar menntastofnanir fyrir heilbrigðisstarfsmenn framtíðarinnar. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir okkar litla land að gefa gaum að þessu áður en það er um seinan. Opinbera kerfið verður að vera sterkt og gott.

Ég vil spyrja ráðherra að eftirfarandi: Hefur ráðherra áhyggjur af því að frekari útvistun verkefna úr almenna heilbrigðiskerfinu og Landspítala til einkaaðila muni geta aukið enn á kostnað sjúklinga og á mönnunarvanda á Landspítala til að geta sinnt þar aðgerðum og stytt biðlista þar eð sérmenntað fólk muni í auknum mæli leita til starfa hjá einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum, svo sem til að komast í liðskiptaaðgerðir, augnaðgerðir og grindarbotnsaðgerðir svo að dæmi séu nefnd? Hvaða leið hyggst ráðherra fara í að bregðast frekar við skorti LSH á röntgenlæknum, skurðhjúkrunarfræðingum og hjúkrunarfræðingum til að manna legudeildir og ónýttar skurðstofur? Hafa verið teknar einhverjar stefnumarkandi ákvarðanir um frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu eða verið kynntar í ríkisstjórn?