153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[16:53]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Það var áhugavert að hlýða á orð hæstv. ráðherra hér áðan, en ég veit að hann brennur fyrir málaflokkinn, brennur fyrir björgunarstörf, brennur fyrir Landhelgisgæsluna. En þetta er niðurstaðan, að hann hefur ekki náð meiri fjármögnun inn í málaflokkinn en raun ber vitni. Ef við tökum bara mark á skýrslu Ríkisendurskoðunar þá erum við ekki að uppfylla þá björgunarkröfu eða þau markmið sem við setjum okkur, lágmarksmarkmið. Það er verulega umhugsunarvert að ríkisstjórnin skuli t.d. hafa lækkað bankaskattinn og þeir fjármunir sem Landhelgisgæslan þarfnast eru ekki nema einn tuttugasti af þeirri upphæð. Það myndi kannski ríða baggamuninn, að við byggjum hér við betra öryggi fyrir sæfarendur og þá sem sækja okkur heim og hæstv. ráðherra þyrfti ekki að reyna að bjarga sér fyrir horn hér með því að kalla eftir góðu starfi sjálfboðaliða hringinn í kringum landið, og þá vísa ég til Landsbjargar sem vinnur vissulega göfugt og gott starf.

Það hefði verið áhugavert hér í umræðunni og í rauninni sakna ég þess af því að dagar ráðherra eru nú brátt taldir í þessu embætti, að við fáum ekki að hlýða hér á stefnu boðaðs eftirmanns hans, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, hver sýn nýs ráðherra er og hvort hann telji að hann muni þá ná betri árangri til að ná inn fjármunum í þetta nauðsynlega verkefni.

En að öðru leyti þakka ég ráðherra fyrir góð svör og veit sem er að hann hefur metnað fyrir verkefninu en virðist ekki fá fjármuni.