Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2023.

Björgunargeta Landhelgisgæslunnar.

[17:05]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á því að fagna sérstaklega þessum mikla áhuga á björgunarmálum á Íslandi. Svo ég komi aðeins inn á fjármálin, þegar 600 milljónirnar lágu fyrir í fjárlögum þá var það samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni og átti að duga til óbreytts rekstrar en svo kom leiðrétting frá þeim um það leyti sem þingið var að afgreiða fjárlögin, þannig að það var ekki hægt að fara þá að breyta því.

Ég ætla að fullyrða að þjónustu- og öryggisstig í björgunarmálum hér, bæði á landi og sjó, hefur aldrei verið hærra og ég man tímana tvenna í þessum málum og þekki þau mjög vel. Þó að við náum kannski ekki háleitum markmiðum um allt það viðbragð sem við viljum hafa, þá blasir sú staðreynd við og við stefnum í þá átt. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur komið hingað öflugasti þyrlukostur sem Gæslan hefur nokkru sinni ráðið yfir, öflugri en var þegar við höfðum aðgang að hernum á sínum tíma. Við erum komin með nýtt, öflugt varðskip, erum með tvö öflug, stór varðskip og við erum að fjármagna kaup á 13 björgunarskipum með Landsbjörg hringinn í kringum landið. Þetta er í pípunum. Framtíðin er auðvitað að endurmeta rekstur og þörf fyrir tækjabúnað. Það hlýtur að vera ábyrgð mín sem dómsmálaráðherra að reyna að fara sem best með það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar og þegar við komum til þingsins með fjár… við höfum grunn að því hvað þarf og ég sé fram á ýmsa hagræðingarmöguleika í þeim efnum.

Við þurfum að hafa flugvél sem getur veitt leitar- og björgunarþjónustu allt árið en það þarf ekki að vera vél eins og TF-SIF, það eru vélar allt í kringum okkur sem eru miklu ódýrari í rekstri en sinna nákvæmlega sama hlutverki, jafnvel með betri hætti. Við þurfum að endurmeta stefnu okkar í þyrlumálum. Ætlum við að leigja þyrlur? Ætlum við að kaupa þyrlur? Á samsetning flotans að vera eins og hún er í dag?(Forseti hringir.) Getum við rekið ódýrari þyrlur með stærri þyrlunum til að sinna almennu sjúkraflugi? Þetta eru allt saman hlutir sem við þurfum að taka til skoðunar áður en við förum að setja bara meiri peninga í verkefni. Við þurfum að vera viss um að við séum að skila hámarksafköstum í því. (Forseti hringir.) Það verður enginn afsláttur gefinn af viðbragðs- eða björgunargetu við leit og björgun á meðan ég er í dómstólaráðuneytinu. Það mun ekki gerast á minni vakt.