131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Þjónusta við yngri alzheimersjúklinga.

114. mál
[15:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur, fyrir að taka upp þetta mál. Ég held að það sé mjög þarft að við ræðum þetta hér á þingi. Alveg eins og þingmaðurinn nefndi þá er ekki um stóran hóp að ræða, 45–50 manns. Engu að síður er þetta hópur sem við þurfum að hlúa miklu betur að en við höfum gert. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að þetta er mjög erfiður sjúkdómur fyrir þá einstaklinga sem í þessu lenda og ekki síður fyrir aðstandendur. Það er auðvitað ágætt út af fyrir sig að skipa vinnuhóp í málið. En mér finnst að þetta mál þoli ekki bið.

Ég get út af fyrir sig verið sammála ráðherra um að huga þarf kannski að nýjum úrræðum, langtímaúrræðum og fellur það ekki alltaf saman að yngri alzheimersjúklingar séu á hjúkrunarheimilum. Engu að síður er málið það brýnt að ég hygg að koma þurfi á fót a.m.k. bráðabirgðaúrræðum þannig að mér finnst rétt að ráðherrann geri meira af því að heimila það að yngri alzheimersjúklingar fái vistun á hjúkrunarheimilum. Síðan þarf auðvitað að huga að langtímaúrræðum eins og ráðherrann nefndi.