133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[16:27]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Margnefndur Þór Whitehead segir í lok sinnar frægu greinar söguna um götóttu olíutunnuna frá árinu 1976, að lögreglustjórinn í Reykjavík hefði, eins og hæstv. dómsmálaráðherra gat um, fengið vilyrði fyrir að verða hæstaréttardómari og þess vegna bað hann einhverja ótilgreinda undirmenn sína að taka njósnagögnin úr leynilögreglunni, að mestum hluta, segir Þór Whitehead, þannig að eitthvað er eftir, og farga þeim. Undirmennirnir tóku gögnin og brenndu þau á afviknum stað í götóttri olíutunnu. Það logaði glatt, er haft eftir brennumönnum.

Sú saga er auðvitað aldeilis ótrúleg að lögreglustjóri hafi beðið aðra embættismenn íslenska ríkisins að eyða gögnum sem var aflað á vegum hins opinbera og þar með þverbrotið ströng lög um skjalavarðveislu.

Atburðir síðustu daga benda þó til að götóttu olíutunnurnar séu enn þá við lýði hjá stjórnvöldum á Íslandi. Hæstv. menntamálaráðherra, sem aldrei þessu vant er ekki hér, er að vísu ekki uppvís að því enn þá að farga gögnum. En hún reynir svo sannarlega að leyna þeim með því að bregðast ekki enn við óskum og síðan stjórnsýslukæru Kjartans Ólafssonar um sama aðgang og annar sagnfræðingur fékk nýlega að gögnum í Þjóðskjalasafni, eða til vara aðgang að þeim gögnum sem snúa að honum sjálfum. Engin rök hefur ráðherrann samt til að hafna þessum kröfum Kjartans að því að séð verður.

Hvað er að gerast? Hverju er ráðherrann að leyna? Er menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins að reka pólitík götóttu olíutunnunnar?

Þá er upplýst að skjöl um hleranir frá árinu 1949 til ársins 1973 voru geymd í dómsmálaráðuneytinu fram til 5. júlí í sumar, þ.e. 2006. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður óskaði eftir aðgangi að þeim gögnum 22. maí í vor. Í tvígang svöruðu fulltrúar hæstv. dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, erindinu með undanfærslum en þriðja bréfi Ragnars svaraði settur dómsmálaráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hæstv. sjávarútvegsráðherra, með því að benda Ragnari á að hafa samband við Þjóðskjalasafnið, eins og segir í bréfinu, með leyfi forseta: „… um aðgang að þeim gögnum sem þar kunna að vera.“

Hæstv. dómsmálaráðherra hafði nefnilega í millitíðinni læðst með þessi hlerunargögn úr ráðuneytinu upp í Þjóðskjalasafn. Sennilega vegna þess að hann gat ekki staðið gegn kröfum lögmannsins.

Hvaða feluleikur er þetta? Það er ótrúlegt, en í dómsmálaráðuneytinu ríkir enn í dag andrúmsloft leyndar og blekkingar í kringum þessi mál. Tveir ráðherrar og reyndar sá þriðji með þeim, allir úr Sjálfstæðisflokknum, eru á harðahlaupum með njósnagögnin að leita að götóttu olíutunnunni.

Forseti. Nefnd Páls Hreinssonar er því miður ekki ætlað að kanna njósnagögn íslenska ríkisins frá árinu 1991 til þessa dags.

Eins og fram hefur komið eru ýmiss konar vísbendingar um að hér hafi starfað leyniþjónusta af einhverju tagi eftir þann tíma. Þær ná hámarki í þeirri staðfestingu sem dómsmálaráðherra reiddi fram hér áðan þegar hann sagði að hann væri að beita sér fyrir því að skipa þessari starfsemi af hálfu ríkisins að lögum.

Dómsmálaráðherra á eftir að skýra fyrir okkur hvað þessi starfsemi er. Hvernig er henni háttað? Hverjar lagaheimildir eru fyrir þessari starfsemi nú sem hafa verið skipaðar að lögum? Um hverja hefur verið njósnað frá 1991? Hafa þær staðið fram til þessa dags í stofnunum ráðherrans eða fara þær fram í ráðuneytinu sjálfu? Hvaða erlend ríki hafa fengið hlutdeild í þessum upplýsingum?

Þessu þarf Björn Bjarnason, hæstv. dómsmálaráðherra, að svara áður en við tökum til við nýja tíma. Áður en við byrjum að skoða tillögur hans eða annarra um öryggisþjónustudeildir eða hvað það á að kalla. Dagar götóttu olíutunnunnar eru liðnir.