133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[17:14]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessar umræður fara alveg út úr öllu samhengi þegar hv. þingmaður stendur hér og hrópar: „Hefur kannski verið njósnað um mig?“ Ég hef ekki minnstu hugmyndir um það og tel — ja, nema þingmaðurinn hafi unnið sér eitthvað til saka því að samkvæmt lögum er ekki hægt að stunda hleranir hér á landi nema fyrir liggi rökstuddur grunur um saknæmt athæfi. Það er það (Gripið fram í.) sem hefur verið í gildi hér frá 1951. Og að tala um það … (Gripið fram í.) Forseti, get ég fengið að tala hér í friði?

Það er ekki nein spurning um hvort þetta sé löglegt eða ekki. Það liggur alveg skýrt fyrir að 1941 giltu hér lög, 1951 komu ný lög og það hefur alltaf verið farið að lögum við þessar ákvarðanir. Ef hv. þingmaður hefur gerst sekur um saknæmt athæfi sem kallar á rannsókn lögreglu þá fer lögregla væntanlega fram á það við dómara að fá úrskurð um það eins og vera ber. Ekki er ég að bera þingmanninn þeim sökum að ástæða sé fyrir lögreglu að stunda slíkar rannsóknir. Það finnst mér algjörlega sýna hvað þessar umræður fara í raun (Gripið fram í.) út um víðan völl og inn á ankannalegar brautir að þingmenn standi hér og hrópi: „Hef ég verið hleraður í 24 ár?“, þegar landslög heimila ekki slíkar athafnir af hálfu lögreglu nema fyrir liggi rökstuddur grunur um saknæmt athæfi. Ég tel að þingmaðurinn liggi ekki undir neinum slíkum grun og þess vegna leyfi ég mér að álykta að hann hafi ekki verið undir neinni smásjá hjá lögreglunni.

En mig langar til að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem því miður er ekki hér í salnum: Hvernig kemst hann að þeirri niðurstöðu að einhverjar rannsóknir hafi verið stundaðar á Stasi-skjölum á árinu 1995, eða ég veit ekki hvaða ár hann er að nefna? (Gripið fram í.) Hvaða heimildir hefur þingmaðurinn fyrir því að þessar rannsóknir hafi verið stundaðar á þessum árum? (Gripið fram í.) Hann nafngreinir einstakling sem ætti að vera auðvelt að leita til og spyrja: Í hvers umboði fór hann og hvaða ár fór hann til þess að rannsaka þessi mál? Hann nafngreinir embættismann sem starfaði hér. Þetta er mál sem þarf að upplýsa. Það þarf að ræða það nánar og fara yfir. (Gripið fram í.) Ég tel að þetta sé eitt af því líka sem menn eru hér að kasta fram, þ.e. einhverjum fullyrðingum sem standast ekki neina skoðun þegar betur er að gáð.

Ég hef verið talsmaður þess um langt skeið að öll gögn í þessum málum verði lögð á borðið. Ég heyri að hér koma þingmenn hver á fætur öðrum og taka undir það sjónarmið mitt. En að leggja það þannig upp að ég sé þar eitthvað ósamkvæmur sjálfum mér í málflutningi sem ég hef haft hér á þingi í tíu, ellefu ár, það er algjörlega rangt. Ég tel að það eigi að leggja öll þessi gögn á borðið, það eigi að leggja öll gögn sem varða Ísland á borðið, það eigi að leggja öll gögn sem varða samskipti íslenskra stjórnmálamanna við erlend ríki á borðið og upplýsa þjóðina um þetta. Öll gögn sem eru í opinberri vörslu eiga auðvitað að vera opin. Það er mín skoðun. Ég tel að ég hafi beitt mér fyrir því hér á þingi með ályktunum, lagabreytingum og við séum að leggja út í þann leiðangur. Ég get því ekki skilið hvers vegna þingmenn kjósa síðan að koma hér og tala í einhverjum hálfkveðnum vísum eða tala eins og hv. fyrirspyrjandi og upphafsmaður umræðunnar gerði í lok máls síns. Hann fer langt út fyrir það sem skynsamlegt er í umræðum um mál af þessu tagi.

Ég man vel — ég var blaðamaður 1968 — þegar NATO-fundurinn var haldinn. Ég fylgdist nákvæmlega með því hvað þá var að gerast. Þá var meðal annars fjallað um það að hingað kynnu að koma hópar frá Grikklandi sem mundu nota þennan fund til þess að hleypa honum upp vegna herstjórnar sem var í Grikklandi á þeim tíma og hafði tekið völdin, ef ég man rétt, 1967. Það voru slíkar aðstæður sem ríktu þá hér í landinu og menn veltu fyrir sér: Þegar NATO-fundur er haldinn á Íslandi, koma þá kannski menn frá Grikklandi til þess að hleypa upp þeim fundi? Slíkar öryggisráðstafanir þurftu menn því að hafa í huga þegar sá fundur var haldinn. (SJS: Hlera líka …) (Forseti hringir.)