133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:35]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Það er ánægjulegt að heyra þessi sjónarmið hjá hv. 1. flutningsmanni þessarar tillögu sem hér hefur verið mælt nokkrum sinnum fyrir, um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Auðvitað má segja að átt hafi sér stað einhvers konar mistök, einhver yfirsjón í sambandi við það að virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár fengu ekki meiri athygli og meiri umræðu á sínum tíma. Sjónir okkar og þeirra sem barist hafa fyrir náttúruvernd undanfarin ár, ekki síst síðustu missiri frá því að hart var tekist á hér um Eyjabakkavirkjun á haustþinginu 1999, hafa beinst að virkjanaframkvæmdum uppi á hálendinu og það er eðlilegt, en þarna er komið upp nokkuð stórt dæmi um umfangsmiklar framkvæmdir niðri í byggð sem munu hafa mjög mikil áhrif og beint fyrir framan augun á okkur. Ég held að það hljóti að kalla á nokkuð ítarlega umræðu og viðbrögð við þeim framkvæmdum sem þar kunna að vera að hefjast, hvernig sem þeim lyktar. Auðvitað hafa þær sína kosti í för með sér en raskið er gífurlegt og þetta mun breyta mjög ásýnd þessara sveita og þessara svæða. Það kallar á umræðu. Því vildi ég spyrja hv. flutningsmann þessarar tillögu hvort slík tillögugerð um Þjórsá og virkjanastefnuna þar hefði verið rædd í framhaldi eða meðfram tillögunni um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Ég held alla vega að það sé mikilvægt að hefja þá umræðu núna, samhliða umræðunni um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, hversu langt okkur leyfist að ganga að þessu leyti líka.