135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:56]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Frú forseti. Ágæti þingheimur. Ég vil svona í lokin á þessari umræðu fá að þakka hér fyrir allt það sem komið hefur fram í dag og ítreka óskir til handa hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytis og annarra ráðuneyta sem hafa komið að gerð þessa frumvarps og sett það hér inn í meðferð í þinginu. Ég vil einnig ítreka það að fjárlaganefndin vinnur eftir mjög fastmótuðu verklagi við yfirferð á þessu verkefni og hér þurfum við öll að standa saman og virða þau tímamörk sem okkur eru sett gagnvart þinginu. Ég vonast til þess, enda hef ég heyrt það í umræðunni í dag að við viljum koma að þessu af heilum hug og fylgja þessu verki áfram líkt og fjárlögunum sjálfum sem við ræddum um í síðustu viku.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Það eru það mikil tíðindi að gerast annars staðar og þar af leiðandi tel ég kannski rétt að við getum lokið þessari umræðu í dag, enda sýnist mér flestir þingmenn vera búnir að tæma sig. Ég ítreka þakkir til handa hæstv. ráðherra og ráðuneytis svo og annarra sem hafa lagt hér efni inn í þessa umræðu.