137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algerlega sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Í svona máli skiptir mjög miklu að flokkarnir reyni að ná samstöðu. Málið varðar svo brýna hagsmuni allrar þjóðarinnar að ég tel að vandaðir stjórnmálamenn, ábyrgir stjórnmálaflokkar eigi að freista þess af megni að hrinda þessu máli ekki ofan í einhverjar flokkspólitískar skotgrafir. Það er alveg ljóst að af minni hálfu mun ekki á standa að leita eftir samráði og samvinnu og sýna lipurleika gagnvart öllum flokkum í þinginu. Ég tel að þetta mál sé þess eðlis að við eigum að freista alls til að við getum náð saman um það. Ef svo kemur í ljós að það er ekki hægt að því er alla varðar verður svo að vera, en ég er til í að ganga ákaflega langt bæði varðandi mótun samningsmarkmiða, varðandi samninganefndina, varðandi alla vinnuna í þessu máli, allt ráðslag, til að ná þeirri samstöðu sem ég tel að þurfi að nást á þinginu en líka milli þingsins og þjóðarinnar. Það má enginn viðskila verða.