137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá grundvallarmunur er á afstöðu okkar í Sjálfstæðisflokknum og flestra þeirra sem skipa sér í flokk með sósíaldemókrötum að við höfum byggt okkar afstöðu á hagsmunamati. Hafi það einhvern tíma vafist fyrir hæstv. utanríkisráðherra hef ég ávallt verið þeirrar skoðunar að hagsmunum okkar verði betur borgið utan Evrópusambandsins.

Ég hef hins vegar sagt að stæðu menn rétt að málum væri mögulega hægt að fara í viðræður en það hefur einfaldlega ekki verið gert hér. Ég hélt að ég hefði komið því nægilega skýrt fram í framsöguræðu minni að það þingmál sem við erum að ræða hér og nú er illa undirbúið og illa ígrundað. Ríkisstjórnin hefur algerlega látið undir höfuð leggjast að leggja fram grundvöll að þessari ákvörðun sem nauðsynlegur er fyrir þingið. Þess vegna sáu þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sig knúna til að leggja fram sérstakt þingmál og leiðbeina ríkisstjórninni um það (Forseti hringir.) hvað þarf að hafa gerst áður en ákvörðun af þessum toga er tekin.