137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrir örfáum mánuðum, áður en hv. þingmaður var snúinn niður á landsfundi Sjálfstæðisflokksins með sjónarmið sín í Evrópumálum, (Gripið fram í: Varst þú á landsfundinum?) taldi hv. þingmaður að grunnurinn við núverandi aðstæður í íslenskum efnahagsmálum væri einmitt á grundvelli gjaldmiðilsins, á grundvelli þeirrar gjaldmiðilskreppu og þeirrar efnahagskreppu sem við vorum í, að þegar fyrir hálfu ári væri orðið brýnt að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og kanna hvaða kosti við ættum í því efni og að forsendan væri sú að við stæðum vörð um auðlindirnar. Ég veit ekki betur en að hvort tveggja komi fram í þessu þingmáli og ég spyr hvort hv. þingmaður sé enn sömu skoðunar.

Hann sagði líka að hann sæi ekki hvers vegna ætti að halda tvær þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að bestu aðstöðuna hefði þjóðin til að skera úr um í málinu þegar niðurstaða í samningunum lægi fyrir. (Forseti hringir.) Ef haldin væri þjóðaratkvæðagreiðsla um að fara í viðræðurnar, til hvers ætti þá að hafa síðari þjóðaratkvæðagreiðsluna? spurði hv. þingmaður og það er eðlilegt að hann svari nú sinni eigin spurningu eftir þann málflutning sem hann hefur haft uppi.