137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:03]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að aldrei hafi farið á milli mála sú afstaða mín að ég tel að aðildarumsókn muni greiða fyrir efnahagslegum stöðugleika og ég er ekki einn um þá skoðun. Ég vil bara benda hv. þingmanni á orð ágæts fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, Jóns Sigurðssonar, til dæmis í því efni og ég vil benda á samdóma álit jafnt helstu hagsmunasamtaka atvinnurekenda og launþega í því efni. Aðildarumsókn að Evrópusambandinu skiptir miklu til að gefa fyrirheit um það hvert við stefnum með efnahagslega framþróun.

Síðan taka aðildarsamningar sinn tíma en nauðsynleg forsenda stöðugleikans er að segja hvert við ætlum að fara. Þess vegna skiptir aðildarumsóknin máli. Það er mjög mikilvægt að hefja þetta ferli. Það er mjög mikilvægt að gera það sem fyrst og ég hef fært fyrir því ítarleg rök í mínu máli af hverju það skiptir máli að gera það líka núna á þessum vikum og mánuðum sem fram undan eru og af hverju það skiptir máli að þetta verði ákveðið nú á þessu sumarþingi.