137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst pínulítið holur hljómur í því sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir vegna þess að hún er að segja að við viljum samstarf og samráð og það á að vinna þannig. En þegar boðið er upp á það þá er strax slegið á útréttar hendur og sagt: „Þið meinið ekkert með því.“ Það er ekki einu sinni látið á það reyna.

Ég hef kynnt, eins og ég sagði áðan, forustumönnum úr stjórnarandstöðunni það að ég vilji gjarnan eiga gott samstarf um það hvernig málið verður unnið. Ég hef sett upp ákveðinn ramma þar sem ég sé fyrir mér hvernig málið geti verið unnið. Ég hef ekki sýnt hæstv. utanríkisráðherra það. Hann veit ekkert hvernig það lítur út og verður ekki spurður að því. En það var sett upp í þeim tilgangi að fá viðbrögð frá stjórnarandstöðunni um það hvaða sjónarmið þar kynnu að vera á ferðinni varðandi vinnulag. Ég hef ekki fengið nein viðbrögð enn þá en vonandi koma þau þegar nefndin kemst að málinu þegar hún fær það til umfjöllunar og tekur það til umræðu áður en mjög langt um líður að öllum líkindum. Þannig að ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að mér finnst mikilvægt að við reynum að verða sammála um það hvernig svona mál er unnið, hvaða upplýsingar þarf að reiða fram. Hér hafa verið nefndir hlutir eins og kostnaðarmat. Ég gat þess þegar í minni ræðu að það væri eitt af því sem við mundum að sjálfsögðu kalla eftir og ég hef grun um að það hafi nú verið einhver vinna unnin í því sambandi á vegum utanríkisráðuneytis og/eða fjármálaráðuneytis. Þannig að slíkar upplýsingar verða kallaðar inn.

Ég hef líka hugmyndir um það að utanríkismálanefnd auglýsi eftir umsögnum um þetta þýðingarmikla mál sem er óvenjulegt. Venjulega eru þingmál send til valinna aðila til umsagnar. (Gripið fram í.) Mér finnst eðlilegt að það verði almenn auglýsing þar sem hverjum þeim sem vill (Forseti hringir.) hafa skoðanir á þessu máli gefist kostur á að koma þeim á framfæri við utanríkismálanefnd. Ég vona að um vinnubrögð af þessu tagi geti (Forseti hringir.) orðið samstaða í nefndinni.

(Forseti (ÞBack): Forseti vil biðja hv. þingmenn afsökunar á því en klukkan er enn og aftur að stríða okkur hér í borðinu þannig að hana er ekki alveg marka.)