137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get upplýst hv. þingmann um að það er lykilatriði fyrir íslensku þjóðina að halda sjálfstæði sínu, það er alveg grundvallaratriði. Ég undra mig á þessari spurningu því að ég held að þetta liggi ljóst fyrir eftir ræðu mína. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin leggur fram þingsályktunartillögu sem kemur til meðferðar í þinginu og það sorglega er í mínum huga, af því að ég er mótfallinn því að farið verði í aðildarviðræður eins og kom fram í ræðu minni, að hér eru tvær þingsályktunartillögur. Hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði fram aðra þeirra því að nafn hans fylgir með á þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það sorglega er ef þinglegur styrkur verður fyrir því að fara í aðildarviðræður. (Gripið fram í.) Því er ég mótfallinn og ég mun greiða atkvæði gegn því, af því að eins og kom fram í ræðu minni þá er sjálfstæðið sívirk auðlind. Ég taldi mig hafa skýrt þetta nokkuð vel út í ræðunni.