138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

kosning aðalmanns í bankaráð Seðlabanka Íslands í stað Magnúsar Árna Skúlasonar til fyrsta þings eftir næstu almennar alþingiskosningar, skv. 26. gr. laga nr. 36 22. maí 2001 um Seðlabanka Íslands.

[11:13]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Hér á að fara að kjósa framsóknarmann í bankaráð Seðlabanka Íslands. Ég hef áður mótmælt úr þessum stól kjöri í bankaráð Seðlabanka Íslands þar sem það bankaráð virðist vera einhvers konar kokkteilsamkvæmi fyrir flokksgæðinga. Komið hefur fram að nýskipaður bankastjóri Seðlabankans ætlar ekkert að gera í því máli að Seðlabankinn tapaði nærri 300 milljörðum á seinasta ári. Komið hefur fram hjá fjárlaganefnd að ríkisendurskoðandi ætlar ekkert að gera í því máli að Seðlabankinn tapaði nærri 300 milljörðum á seinasta ári. Hér er tækifæri fyrir Alþingi að lýsa því yfir að það ætli að láta rannsaka starfsemi Seðlabankans ofan í kjölinn.

Mig langar að vita hvað þessi framsóknarmaður í bankaráði Seðlabankans ætlar að gera þar til að gæta hagsmuna Alþingis og til að gæta hagsmuna almennings í bankaráði Seðlabanka Íslands. Þetta er ekki eitthvert kokkteilsamkvæmi, það er verið að ræða hundruð milljarða sem hafa tapast og það er algjörlega óásættanlegt að menn skuli halda áfram mánuð eftir mánuð eins og ekkert hafi í skorist.

Þess vegna mótmæli ég þessu kjöri og óska eftir því að því verði frestað og að lögum um Seðlabanka Íslands verði breytt og unnið verði eftir þeim þaðan í frá.