138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

samningsmarkmið Íslands fyrir loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

[13:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Á vissan hátt er ánægjulegt að sjá ríkisstjórnarflokkana tvo ganga samstiga í einu máli á vettvangi þingsins. Nú ber svo við að stjórnarandstaðan öll eins og hún leggur sig er ósammála þeirri samstiga ríkisstjórn sem ríkir í landinu, a.m.k. í þessu máli. Ég er viss um að hæstv. umhverfisráðherra getur tekið undir það með mér að Ísland er hreinasta land í heimi. Ísland er hreinasta land í heimi þegar kemur að nýtingu á orkuauðlindum. Hinir svokölluðu umhverfisverndarsinnar sem segjast vilja hugsa hnattrænt og minnka mengun í heiminum eru á móti því að við sækjumst eftir stöðugum heimildum fyrir því að nýta þessar glæsilegu orkuauðlindir okkar til að bæta ástand umhverfismála í heiminum. Svo kalla þessir sömu ágætu stjórnmálamenn sig hér mikla umhverfissinna sem geta ekki hugsað út fyrir landsteinana á þessari litlu 300.000 manna eyju.

Ég vil minna á hvað Samfylkingin sagði þegar þáverandi hæstv. umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir beitti sér fyrir því að við fengjum heimildir til að nýta þessar auðlindir okkar. Þá sagði hæstv. utanríkisráðherra að þessi hugmynd hæstv. ráðherra Sivjar Friðleifsdóttur yrðu hlegnar út af borðinu. Hver varð svo niðurstaða þess máls? Jú, við fengum heimildir til að nýta þessar auðlindir okkar. Og til hvers? Til að byggja upp atvinnulíf hér á landi. Þegar hæstv. umhverfisráðherra sagði í ræðu sinni áðan að þau væru á leiðinni inn í nútímann vil ég biðja hana um að koma inn í nútímann hér á landi.

12.000–14.000 manns ganga um án atvinnu á Íslandi í dag. Við höfum aldrei í sögu lýðveldisins eins og nú þurft á ríkisstjórn að halda sem berst mikið fyrir aukinni atvinnu hér á landi. Við höfum horft upp á nýlegar gjörðir þessa ágæta ráðherra sem hafa komið í veg fyrir það og jafnvel sett í uppnám uppbyggingu 1.000 starfa á Reykjanesi (Forseti hringir.) þar sem eitt mesta atvinnuleysi landsins er í dag. Ég bið hæstv. umhverfisráðherra að koma með okkur hinum inn í nútímann. (Gripið fram í.)