138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Nú er hins vegar ýmislegt í þessari þingsályktunartillögu sem ég tel að falli Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ekkert sérstaklega vel og sé ekki honum að skapi. Ég get því varla séð að það séu rökin fyrir því að menn voru ekki tilbúnir að skoða þessar hugmyndir.

Við töluðum í okkar tillögu um að setja á fót svona uppboðsmarkað. Malasíu tókst einhvern veginn að koma í veg fyrir viðskipti með mynt sína erlendis en það er náttúrlega markaður erlendis fyrir íslenskar krónur. Mér skilst að sá markaður velti allt að 30 milljörðum á mánuði. Ég tel að þessum hræddu krónum sem þingmaðurinn talaði um hafi fækkað eitthvað á þessum tæplega 12 mánuðum frá því að hrunið varð þannig að pressan er kannski ekki jafnmikil. Það væri áhugavert að heyra hv. þingmann svara þeim spurningum sem ég bar fram og klára sérstaklega þetta varðandi uppboðsmarkaðinn. Við erum nú þegar með gengi hér á Íslandi og annað erlendis en þau hafa að vísu verið að nálgast hvort annað. Sér hv. þingmaður önnur rök með og móti því af hverju mætti skoða þetta með uppboðsmarkaðinn?

Ég tek svo sem undir að varðandi reynslu Malasíu þurftu þeir t.d. ekki á láni að halda frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að því leyti voru þeir mun frjálsari til að fara sínar eigin leiðir en við virðumst vera því við verðum að leita eftir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum ríkjum líka. Eitt af því sem þessi nóbelsverðlaunahafi í hagfræði benti okkur á var að við ættum að vera frumleg í hugsun og koma okkar hugmyndum á framfæri. Þess vegna vildi ég gjarnan (Forseti hringir.) heyra meira frá þingmanninum um hans skoðun á þessu.