138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[14:55]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni ágætis framsetningu á þessu vandamáli sem við stöndum frammi fyrir sem er efnahagsmál. Mig langar að spyrja hann að tvennu. Annars vegar varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og það prógramm allt og þau vandræði sem við erum í vegna þessara svokölluðu hræddu krónueigenda. Vandamálið er skiljanlegt en það sem er á bak við það hefur ekki enn komið upp á yfirborðið og það er hverjir þessir hræddu krónueigendur eru. Þar erum við enn þá föst í viðjum ársins 2007 þar sem enginn vissi hver átti hvað, hver gerði hvað og hvenær. Það er ekki lengra síðan en tveir dagar að forsvarsmenn Íslandsbanka reyndu á fundi efnahags- og skattanefndar að sannfæra nefndina um að þessir krónueigendur sem áttu svo afskaplega bágt vegna þess að þeir þurftu að borga aflandsskatt af útflutningi á gjaldeyri væru ítalskir og kínverskir bændur. Þegar síðan var gengið á þá höfðu þeir náttúrlega ekki hugmynd um hverjir þessir hræddu krónueigendur voru.

Ég vil fá upp á yfirborðið, og það er ágætt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er hér sem og fjármálaráðherra, hverjir þessir hræddu krónueigendur eru. Þessir krónubréfaútgefendur hafa oft verið taldir vera íslenskir aðilar með heimilisfesti erlendis. Ef svo er þarf það að koma upp á yfirborðið því þetta fólk veldur stórfelldu tjóni á íslensku efnahagslífi. Það er svo sem ekkert nýtt að íslenskir kapítalistar valdi stórfelldu tjóni á íslensku efnahagslífi en er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það þurfi að upplýsa hverjir eru á bak við þetta?