138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi í ræðu minni um fjárlögin að það þyrfti að taka á því agaleysi sem ríkti í ríkisfjármálum. Á nákvæmlega sama hátt taldi ég þegar ég sinnti starfi mínu sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ að taka þyrfti á vandamálum sem ríktu í því sveitarfélagi þar sem æðimargir litu á fjárhagsáætlunina sem heimild til þess að fara fram úr henni en ekki sem tölur sem þeir ættu að fara eftir. Til þess að koma í veg fyrir agaleysi í ríkisfjármálum þarf einfaldlega, frú forseti, að fara í heildaruppstokkun á kerfinu eins og það liggur fyrir. Síðast en ekki síst þarf að vera til staðar afar virkt eftirlit þeirra sem bera ábyrgð á stofnunum, sem eru þá ráðuneyti versus undirstofnanir, að það sé samvinna og samráð á milli ráðuneytis og stofnana og þar hittist aðilar, fari yfir og skoði alla liði að jafnaði mánaðarlega eða á tveggja mánaða fresti til þess að agi ríki í meðferð fjármuna ríkisins. Þetta er hægt að gera á nákvæmlega sama hátt og varðandi aga í meðferð fjármuna sveitarfélaga. Ávinningurinn við slíka vinnu, þótt hún sé tímafrek, er margþættur. Hún eflir þekkingu forstöðumanna stofnana á rekstri fyrirtækjanna sem eru í eigu ríkisins eða sveitarfélaganna og á móti veitir hún þeim forstöðumönnum sem þar eru virkt eftirlit. Þetta er gagnkvæmt og á að geta skilað ríki eins og sveitarfélögum verulegum árangri í hóflegri meðferð fjármuna og metnaðarfullri meðferð (Forseti hringir.) fjármuna sem borgaðir eru með skattfé borgaranna.