138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[17:47]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. 25. apríl sl. voru kosningar. Af hverju nefni ég það hér? Jú, vegna þess að mér finnst tíminn hafa staðið í stað. Lausnir á hinum brýnu viðfangsefnum sem blöstu við þjóðinni til endurreisnar á íslensku efnahagslífi og ganga átti í af öryggi og festu af nýrri ríkisstjórn virðast enn vera langt undan. Því vil ég taka undir með hv. þingmönnum sem hafa komið hingað upp í dag og fagna þeirri umræðu sem hefur farið fram af hálfu allra þingmanna í öllum flokkum og verið mjög upplýsandi fyrir mig. Öll þjóðin skilur að rekstur ríkissjóðs er erfiður og taka þarf á málum, það þarf að auka tekjur ríkisins ásamt því að hagræða í rekstri og um þetta er ekki deilt. Í þeirri tillögu til þingsályktunar sem er hér til umræðu eru lagðar til leiðir í ríkisfjármálum sem fela í sér hagræðingu, niðurskurð ríkisútgjalda og breikkun skattstofna, aðrar leiðir en fjármálaráðherra leggur til í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010. Þær leiðir sem þar eru lagðar til boða að mínu mati stöðnun og stórfellt atvinnuleysi.

Við hagræðingu og niðurskurð í opinberum rekstri er mikilvægt að markmiðin séu skýr og að þeim sé unnið í samráði og samstarfi við þá sem best þekkja til, starfsmenn og stjórnendur hlutaðeigandi málaflokka, en ekki sé valin leið flats niðurskurðar. Enginn er öfundsverður af að þurfa að taka ákvarðanir sem leiða til uppsagna starfsmanna og samdráttar í þjónustu. Það þekki ég á eigin skinni sem sveitarstjóri. Því er nauðsynlegt að vanda vel til verka og forgangsröðun þarf að vera skýr. Benda má á þá vinnu sem flest sveitarfélög landsins fóru í sl. haust, þ.e. það verkefni að skilgreina og draga fram hvað er grunnþjónusta við íbúa. Sama verklag þarf að viðhafa í ríkisrekstrinum, óháð búsetu íbúa landsins.

Ég dreg þetta fram vegna þess að það er morgunljóst að ef tillögur til niðurskurðar sem lagðar eru til í frumvarpi til fjárlaga ná fram að ganga mun sú aðferðafræði sem þar er viðhöfð fækka mjög opinberum störfum á landinu öllu. Slíkt boðar í mínum huga að höggvið verður fast að landsbyggðinni. Niðurskurðarkrafa ríkisins gagnvart stofnunum úti um allt land er uggvænleg og dæmi um mun hærri niðurskurðarprósentu en á stofnunum á höfuðborgarsvæðinu.

Sem íbúi á landsbyggðinni alla mína tíð get ég ekki orða bundist yfir þeirri ógn sem steðjar að ef þau opinberu störf sem íbúar og sveitarfélög á landsbyggðinni hafa barist fyrir með blóði, svita og tárum að ná til sín í gegnum tíðina verða lögð niður eða flutt til höfuðborgarinnar undir merkjum hagræðingar. Við sjáum þess glögglega merki hvað varðar tillögur um hagræðingu. Ég nefni sérstaklega sýslumannsembættin. Við verðum að hafa markmiðin skýr á tímum niðurskurðar og hagræðingar.

Ásamt hagræðingu og niðurskurði í ríkisrekstri þarf að auka tekjur ríkisins eins og kostur er. Það væri betur gert með því að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað en að ráðast í stórfelldar skattahækkanir. Þar skiptir miklu máli að efla atvinnulífið og að mínu áliti munu framleiðslugreinar, gjaldeyrisskapandi greinar, gegna þar lykilhlutverki. Í þessu sambandi vil ég draga fram sérstaklega sjávarútveginn og ferðaþjónustuna.

Sjávarútvegurinn hefur löngum verið undirstöðuatvinnugrein og sterk rök hníga að því að auka aflaheimildir. Tryggja þarf störf við veiðar og vinnslu auk þess sem gjaldeyrir sem skapast er efnahagslífinu og þjóðinni ómetanlegur. Sú óvissa sem steðjar að þessari undirstöðuatvinnugrein vegna aðgerða stjórnvalda er algerlega óviðunandi. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir auknum sköttum á greinina. Stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir að innkalla skuli veiðiheimildir og boðað hefur verið að sú innköllun hefjist 1. september 2010. Á sama tíma hefur verið sett af stað vinna í nefnd sem hefur það að markmiði að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið með það að leiðarljósi að leita leiða til sátta við greinina. Allt þetta hefur sett sjávarútveginn í uppnám og þar með það hlutverk hans að vera kjölfesta við endurreisn atvinnulífs þjóðarinnar.

Ferðaþjónustan er orðin burðarás í atvinnulífi og gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Greininni þarf að skapa viðunandi starfsskilyrði og standa vörð um þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í markaðssetningu og stefnumótun. Það verður ekki gert með þeim samdrætti á framlögum til landkynningar og markaðsmála og sérstakri skattlagningu í formi gistináttagjalds sem boðuð er í margnefndu frumvarpi til fjárlaga 2010. Þá vitum við öll í hvaða uppnámi stöðugleikasáttmálinn er gagnvart atvinnulífinu og varðar uppbyggingu atvinnufyrirtækja sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

Virðulegi forseti. Það er hlutverk stjórnvalda hverju sinni að skapa þau skilyrði fyrir atvinnulífið að það geti blómstrað. Einungis með þeim hætti tekst okkur að koma efnahagslífinu í gang. Þá fyrst förum við að vinna okkur út úr lægðinni hægt og bítandi.

Ég nefndi hér í upphafi að liðið væri u.þ.b. hálft ár frá kosningum. Gjaldeyrishöft, jöklabréf, stýrivextir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, þetta voru aðalumræðuefni framboðsfunda. Kallað var eftir tillögum frambjóðenda um hvernig væri best að ganga til verka svo hægt væri að ná tökum á hagstjórn landsins. Í þessari þingsályktunartillögu hafa verið lagðar fram raunhæfar tillögur sem miða að því að koma þjóðinni út úr þeirri efnahagslægð sem hér er. Þá verður enn og aftur að draga fram þá staðreynd að stöðugleikasáttmálinn er í uppnámi þar sem markmið um lækkun stýrivaxta hefur ekki náðst.

Virðulegi forseti. Í þessari tillögu til þingsályktunar sem hér er til umræðu eru lagðar til leiðir til að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja. Hvað varðar heimilin er lögð til pólitísk samstaða um leiðir. Ég tel þetta algert lykilatriði ef takast á sátt um aðgerðir. Það ríkir vonleysi í samfélaginu, greiðsluvilji fólks og fyrirtækja fer þverrandi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar koma að nokkru til móts við greiðsluvanda heimilanna en leiðrétta þarf þann forsendubrest sem varð fyrir rúmu ári síðan. Hér á ég við að ekki er tekið á þeirri staðreynd að óvissa ríkir um meðferð á höfuðstólum lána, þ.e. hve stór hluti lána verður að lokum afskrifaður með tilheyrandi áhrifum á fasteignamarkað. Setja þarf skýra og samræmda stefnu um hvernig standa skuli að endurskipulagningu fyrirtækja í landinu. Sjónum okkar hefur of mikið verið beint að stærstu fyrirtækjum landsins en á meðan hafa úrræði til lítilla og meðalstórra fyrirtækja ekki verið kynnt. Á þessu þarf að taka af festu því það er jú staðreynd að langflest störf eru hjá þessum fyrirtækjum. Við verðum að hefja okkur yfir þá umræðu að leiðrétting á þeim forsendubresti sem varð fyrir rúmu ári síðan verði til þess að einhver hljóti meiri ávinning en annar. Við eigum að nálgast þetta á þann hátt að við hljótum öll ávinning af því að fara þessa leið því hún verður til þess að flest heimili og fyrirtæki fá aftur svigrúm til athafna. Það er ekkert nema jákvætt við þessa tillögu.

Það afl og sú þekking sem býr í fólki og fyrirtækjum þessa lands er ómetanleg auðlind. Heimili og fyrirtæki eru aðframkomin vegna aðgerðaleysis. Við verðum að leysa þetta afl úr læðingi. Tillögur okkar sjálfstæðismanna miða að því að gera einmitt þetta. Ég hvet ríkisstjórnina til að skoða þennan valkost sem samstarfsgrundvöll þjóðinni til heilla.