140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:53]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er nú svo þegar fjáraukalög eru lögð fram að þar kennir ýmissa grasa. Vissulega get ég viðurkennt að oft og tíðum þykir manni umræðan um fjárlög bera þess merki að almennur áhugi á þeirri vinnu sé ekki ýkja mikill meðal þingmanna, nema ef upp koma einstök lítil afmörkuð tilvik. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir eru ýmis atriði sem kalla á mjög ítarlega yfirferð fjárlaganefndar og nefni ég þá sérstaklega 4. gr. frumvarpsins sem lýtur að breytingum á 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2011.

Áður en ég kem að því ætla ég að gera að umtalsefni samskipti fjárlaganefndar við framkvæmdarvaldið og upplýsingagjöfina sem þaðan kemur við eðlilegum og sjálfsögðum fyrirspurnum fjárlaganefndar um hin ýmsu atriði sem lúta að útgjöldum eða útgjaldaskuldbindingum ríkissjóðs. Þegar ég fékk það frumvarp sem hér liggur fyrir rak ég augun í eitt tiltekið nýmæli sem vakti sérstaka athygli mína einfaldlega vegna þess að ég varð fyrst var við það í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 sem kom raunar fram á undan fjáraukalögunum. Þetta lýtur að því að Ísland og íslenski ríkissjóðurinn er kominn á fjárlög hjá Evrópusambandinu. Hér er komið inn nýtt framlag sem heitir fjárframlög frá erlendum aðilum, þetta er innan tekjuhliðar A-hluta ríkisreiknings. Þetta vakti sérstaka athygli mína í ljósi þeirrar vinnu og umræðna sem um þessi mál hafa farið í þinginu og raunar í ýmsum nefndum. En þetta atriði sem hér liggur fyrir í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2011 vakti athygli mína í ljósi þess að ég gekkst í það mál í vor að kalla eftir svörum frá hverju einasta ráðuneyti varðandi fjárframlög frá Evrópusambandinu til íslenska ríkisins vegna aðildarumsóknarinnar.

Ég verð að segja að tillaga hér um fjáraukalagagrein sem hljóðar upp á 372 millj. kr. stemmir, svo ekki sé meira sagt, ansi illa við þau svör sem fjárlaganefnd fékk fyrir minn atbeina úr hverju einasta ráðuneyti. Skemmst er frá því að segja að öll ráðuneyti nema utanríkisráðuneytið könnuðust ekki við nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum. Mér finnst þetta umhugsunarefni, sérstaklega þegar þess er gætt að í fjáraukalögunum er óskað eftir heimild til þess að veita viðtöku styrk að fjárhæð 372 millj. kr. og í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir styrk að fjárhæð sem nemur tæpum 600 millj. kr. Allt í allt er íslenski ríkissjóðurinn því að fá á þessum tveimur árum hátt í einn milljarð kr. í styrk frá Evrópusambandinu vegna aðildarumsóknar Íslands eins og stendur í hvor tveggja frumvörpunum. Þetta er mjög merkilegt.

Þær spurningar sem ég sendi með atbeina fjárlaganefndar til ráðuneytanna voru þrjár. Ég ætla að vitna í þær, með leyfi forseta.

Í fyrsta lagi: Hvaða fjárveitingar samkvæmt fjárlögum hefur ráðuneytið og A-hluta stofnanir þess þegið vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið?

Í öðru lagi: Hvaða önnur framlög utan fjárlaga hefur ráðuneytið og A-hluta stofnanir þess þegið vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið?

Í þriðja lagi: Hefur ráðuneytið eða stofnanir þess þurft að ráðstafa fjárheimildum í aðildarviðræður sem gert hafði verið gert ráð fyrir að verja til annarra verkefna?

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur ekki fengið sérstakar fjárveitingar vegna þessara viðræðna. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur ekki fengið framlög utan fjárlaga og sama ráðuneyti hefur ekki ráðstafað fjárheimildum til annarra verka. Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og Seðlabanki Íslands sem starfa á þess vegum hafa hvorki fengið sérstakar fjárveitingar vegna aðildarviðræðnanna né fengið framlög utan fjárlaga og ekki ráðstafað heimildum til annarra verkefna. Einkaleyfastofa sömuleiðis. Hagstofa Íslands er eina stofnunin sem hefur fengið framlög vegna þessa.

Hvert einasta ráðuneyti gefur sams konar svör, ekkert þeirra hefur fengið framlög eða ráðstafað fjármunum utan fjárlaga vegna þessa máls. Utanríkisráðuneytið er eina ráðuneytið sem viðurkennir þetta og talar um að það hafi með höndum ferðakostnað og aðkeypta þjónustu en 100 millj. kr. séu ætlaðar vegna annarra ráðuneyta til þessara mála.

Þegar maður sér þá fjárhæð sem hér er tilgreind og ber hana saman við þau svör sem Alþingi hefur fengið frá ráðuneytinu er þetta í fyrsta lagi dónaskapur og í öðru lagi tilraun til að fela einhvern veruleika sem stjórnarliðar vilja ekki draga fram á vettvanginn. Það er með ólíkindum að svona sé komið fram. Þegar maður les svo greinargerðirnar með þessu og horfir á þetta er þessum framlögum ætlað að dekka kostnað annars vegar vegna Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins og hins vegar vegna Hagstofunnar. Þetta er ekki í neinu samræmi við þau fjárframlög sem ákveðin hafa verið til Þýðingamiðstöðvar eins og hér greinir í skýringum við fjárlagafrumvarpið og því síður framlögin að teknu tilliti til þess kostnaðar sem Hagstofan hefur, og því fer þetta ekki á neinn hátt í að nýta þann styrk sem frá Evrópusambandinu kemur.

Þá spyr maður: Hvert rennur þessi styrkur annað en til utanríkisráðueytisins eða Hagstofunnar? Í hvað fer þetta? Ekki er hægt að skipta þessu á milli ráðuneytanna miðað við þau svör sem þau hafa gefið. Er þetta einfaldlega styrkur sem rennur beint í ríkissjóð? Ég hef fullan skilning á því að við höfum fulla þörf fyrir þær fjárhæðir sem þar um ræðir til að vinna okkur í gegnum vandann en ég hafði ekki ætlað það að Evrópusambandið veitti íslenska ríkissjóðnum styrk til þess að vinna á hallarekstri ríkissjóðs. Til einhverra verkefna hlýtur þessu að vera varið. Ég skil ekki hvers vegna í ósköpunum er svona erfitt að tutla þetta út úr Stjórnarráðinu.

Á annað ár hefur verið spurt eftir þessu og enn eru engin svör komin sem leiða mönnum fyrir sjónir hvernig þessum fjármunum er ráðstafað, því að viðurkenningin liggur skilmerkilega fyrir í því að það er verið að veita viðtöku styrkjum frá Evrópusambandinu vegna aðildarumsóknarinnar. Það eru út af fyrir sig ákveðin tímamót og ber að fagna því að menn taka út einhvern þroska í þeim efnum.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna eru heimildarákvæðin. Um þau var rætt hér í ræðu og andsvörum hæstv. fjármálaráðherra við þá þingmenn sem fóru í andsvör við hann, annars vegar það sem lýtur að Sparisjóði Keflavíkur og uppgjöri á greiðslu til Landsbankans vegna þeirra mála og hins vegar eignarhlutinn í Byr. Þarna eru vissulega, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, gríðarlegar fjárhæðir á ferðinni og það er ekkert óeðlilegt að spurt sé um það við hvaða útlátum ríkissjóður geti búist í þessum efnum. Hins vegar er algjörlega óásættanlegt þegar við vitum af því og höfum viðurkenningu fyrir því að til þessara útgjalda komi að þá sé verið að ræða um að hallinn á ríkissjóði sé einhver tiltekin tala án þess að tekið sé tillit til þeirra staðreynda sem þarna liggja fyrir utan. Við eigum að búa okkur undir það og taka á fjármálum ríkisins með það í huga að vera með allar þessar fjárhæðir undir.

Hæstv. ráðherra bar það fyrir sig að ekki væri eðlilegt að upplýsa úr ræðustóli um einhverja tiltekna krónutölu í þessum efnum. Ég skil það sjónarmið mætavel en ég bendi á að hinum megin borðsins á móti fjármálaráðherra situr annar samningsaðili sem hefur þessar upplýsingar líka. Ég held að menn þurfi með einhverju móti að nálgast þetta og leiða þetta mál til lykta en óumdeilt er að þegar við ræðum fjárhagsstöðuna, mögulega afkomu ríkissjóðs, verðum við að vera með það undir í þessum efnum að hér á eftir að koma til verulegra útgjalda úr ríkissjóði. Sömuleiðis má tiltaka það sem kom einnig fram í andsvörum hjá hæstv. ráðherra að gera má ráð fyrir því að ríkissjóður þurfi að leggja Íbúðalánasjóði til fé þó svo að við að sjálfsögðu vonum öll að til þess þurfi ekki að koma.

Afstaða mín í þessum máli byggir á því að ég tel að inn í fjáraukalögin fyrir árið 2011 verði að koma með skýrari hætti einhver afmörkun á þeim fjárhagsstærðum sem hér um ræðir. Það gengur einfaldlega ekki að við eigum hér í samræðum oft og tíðum, hvort heldur úr ræðustóli Alþingis eða í nefndum, þar sem við erum að velta á undan okkur 1 eða 2 eða 10 milljónum og séum svo að gefa sýknt og heilagt opnar heimildir í 6. gr. fjárlaga þar sem hægt er að velta á milli stofnana tugum milljarða króna. Ég vil undirstrika það vegna þess að þegar maður hefur verið að benda á gagnrýnivert vinnulag er ýmist gefið í skyn að maður sé andvígur viðkomandi málum eða þetta hafi verið gert með allt öðrum hætti á árum áður. Það kemur stöðunni í dag ekki hætishót við. Þetta er viðfangsefni dagsins sem við er að glíma og ef við ætlum ekki að vera með alla hluti uppi á borðum í þeim efnum gengur okkur ekkert að vinna á því.

Maður spyr sig ýmissa spurninga gagnvart slíkum heimildarákvæðum. Ég tel mjög afdráttarlaust, og vil ítreka það við hv. formann fjárlaganefndar að beita sér fyrir því, að allar upplýsingar sem fjárlaganefnd þarf á að halda í þessum efnum eigi að koma upp á borðið í vinnu nefndarinnar svo við gerum okkur grein fyrir þeim fjárhagsstærðum sem þarna er um að ræða en stöndum ekki í þeim sporum að vera hugsanlega á árinu 2012 jafnvel í versta falli á árinu 2013 að fá ríkisreikning fyrir árið 2011 sem sýnir okkur í rauninni fram á um hvaða skuldbindingar er að ræða. Það er gjörsamlega óásættanlegt vinnulag og ástæðulaust að þurfa að hafa hlutina með þeim hætti nema menn hafi einbeittan vilja til að fela þessar stærðir. Ég trúi því ekki upp á hv. formann fjárlaganefndar að svo hátti til í því tilviki. Ég hef enga ástæðu til að ætla það.

Í heildina tekið er þetta fjáraukalagafrumvarp markað af þeim kjarasamningum sem gerðir voru um mitt þetta ár. Það er alveg augljóst að þeir hafa verið ríkissjóði gríðarlega þungir á útgjaldahliðinni. Einhver hluti þeirra kemur til baka í formi skattgreiðslna launþega til ríkissjóðs en við sjáum hér verulega þenslu á ýmiss konar bótaliðum, launaliðum o.s.frv. Gera má ráð fyrir að megnið af þeim fjárveitingum sem hér liggja fyrir, óskir um aukningu við gildandi fjárlög fyrir árið 2011 á grunni þessara fjáraukalaga, megnið af þeim fjárveitingum sem þar um ræðir, hátt í 14 milljarðar kr., sé til komið vegna áhrifa kjarasamninganna. Þegar haft er í huga að áhrifin af kjarasamningunum í fjárlagafrumvarpinu eins og það liggur fyrir eru metin á um 26 milljarða kr. erum við farin að ræða um áhrif á einu ári upp á allt að 35–40 milljarða kr. hækkun í útgjöldum ríkissjóðs og þá eru tvö ár eftir af samningstímanum. Þarna hafa legið undir gríðarlegar fjárhæðir, allt að 60, 70 milljarðar kr. gróft til tekið, og forsendan fyrir því, og á það vil ég minna undir lok ræðu minnar, að ríkissjóður gæti staðið undir þeim skuldbindingum sem af þessu leiðir var aukinn hagvöxtur í þjóðfélaginu, aukin verðmætasköpun þannig að fólk ætti möguleika á því að efla tekjur sínar og þrífast betur í samfélagi sem byggði á meiri fjárfestingu en raun ber vitni. Ég ber nokkurn kvíðboga fyrir því að þær áætlanir gangi ekki eftir án þess að ég sé með neitt svartagallsraus í því en ég óska þess svo sannarlega að áætlanir hins opinbera og vinnumarkaðarins um aukinn hagvöxt gangi eftir því að öðrum kosti munum við ekki geta staðið undir þeim kjarasamningum sem gerðir voru um mitt þetta ár.