140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta svar hv. formanns fjárlaganefndar urðu mér nokkur vonbrigði. Hún dettur bara niður í sömu þjarkumræðuna og við höfum verið í varðandi þetta mál og við það situr. Hér er ég að vitna til skriflegra svara frá öllum ráðuneytum sem hv. þingmaður virðist ekki taka neitt einasta mark á. Það liggur fyrir að þessir styrkir fara ekkert allir til Þýðingamiðstöðvar og Hagstofunnar. Þá spyr maður og ég hef ekki fengið nein svör við því enn: Hvert fara hinir styrkirnir? Er ekki eðlilegt að fjárveitingavaldið kalli eftir spurningum um það? Ég hef ekkert á móti því ef það er ákvörðun meiri hluta að fara þá leið að sækja það fé sem hann getur til að létta sér kostnaðinn, en grundvallaratriði fyrir okkur sem þingmenn er að fá svör við því hvert þetta fé rennur. Við höfum ekki fengið þau enn þá og ræða hv. þingmanns veitir mér engin svör í þeim efnum, heldur miklu fremur býður upp á sama karp áfram. Það þykir mér miður.