140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið sanngjarn í þessari umræðu og sagt að það sé rétt að ríkisstjórnin hefur náð fram þeim markmiðum sem hún ætlaði sér varðandi frumjöfnuð. En frumjöfnuður segir ekki alla söguna. Heildarjöfnuðurinn er miklu betra mælitæki til að sjá svart á hvítu hvernig rekstri ríkissjóðs hefur verið háttað. Þar er ríkisstjórnin langt undir markmiðum sínum og markmiðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég held nefnilega að allt sem hv. þingmaður telur ríkisstjórninni til tekna sé henni bara alls ekki að þakka. Ég held að við ættum miklu frekar að horfa á að við höfum sjálfstæðan gjaldmiðil og þá staðreynd að við erum fyrir utan Evrópusambandið, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt annað en að skera niður og skattpína almenning. Ég endurtek spurningu mína um hagvöxt og ég vona að hv. þingmaður treysti sér til þess að svara henni, vegna þess (Forseti hringir.) að hún á svo sannarlega við fjáraukalagafrumvarpið sem við ræðum núna.