140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega ótrúlegt því Icesave var undirritað af hæstv. fjármálaráðherra, samþykkt sem lög frá Alþingi og hv. þingmaður samþykkti samt sem áður fjáraukalög þar sem það gleymdist. Ef þjóðin hefði ekki hafnað þeim samningum sætum við uppi með tugi milljarða í skuldbindingu vegna vaxta.

Ríkisstjórnin hefur náð mörgum ágætum árangri, t.d. í niðurskurði, en á sama tíma gerir hún gífurleg mistök gagnvart fjármagnseigendum. Hún gusar út tugum milljarða sem ekki koma fram í fjáraukalögunum við Sparisjóð Keflavíkur fyrir innstæðueigendur, á sama tíma og sagt er upp fólki á spítölum út um allt land. Það getur verið að það sé nauðsynlegt, ég veit það ekki, en ég held að menn hafi sofið fulllengi á verðinum yfir stöðu Sparisjóðs Keflavíkur og tekið allt of seint á þeim vandamálum. Það kostar milljarða og milljarðatugi, á sama tíma og menn eru að skera niður.