140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Hún átti að fjalla um dýravernd en eins og fram kom í máli ráðherrans er betra að fjalla um þetta sem dýravelferð, það er miklu skynsamlegri nálgun.

Almennt vil ég segja að meðferð dýra er góð en auðvitað eru svartir sauðir alls staðar innan um. Það er rétt að ekki hefur verið tekið nægilega vel á þeim vandræðum sem upp hafa komið. Af hverju eru svartir sauðir? Fyrst og fremst vegna vanþekkingar, því miður, og nú á síðustu árum hefur orðið mikil fjölgun dýraeigenda, ekki síst þeirra sem eiga gæludýr og hross, og skort hefur á að þekkingin fylgi með. Í annan stað er það iðnaðarframleiðsla en sem betur fer þekkjum við hana kannski ekki hérlendis í þeim skala sem við höfum séð í sjónvarpinu, en vegna kröfunnar um sífellt lægra matarverð, vöruverð, er gengið á velferð dýranna í slíkri framleiðslu.

Það sem ég vil segja, og tek undir með hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, er að lagaumhverfið er verulega gallað og hefur verið lengi. Eftirlitskerfin hafa verið gölluð og þetta hefur verið lengi í skoðun. Það er löngu tímabært að taka á málinu og koma því í þann farveg sem skynsamlegast er.

Mín skoðun er sú að almenningsálitið breytir hugmyndum um dýravelferð og dýravernd og færir til þröskulda og setur ný viðmið, og hefur gert það á liðnum árum. Ábyrgðin þarf að vera á höndum dýraeigenda, ekki sveitarfélaga eða annarra eftirlitsaðila. Við þurfum að nýta betur praktíserandi dýralækna og þar vil ég líka taka undir með hv. málshefjanda um að ríkisvaldið tryggi dýralæknaþjónustu um land allt. Við þurfum að klára heildarendurskoðun lagaumhverfisins og mikilvægustu punktarnir eru að það sé ein yfirstjórn og skýr ákvæði og valdmörk (Forseti hringir.) til að taka á þeim málum sem upp koma, vörslusvipting þar með talin.