140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:50]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér hefur þótt jákvætt að hlusta á hæstv. ráðherra og hv. þingmenn því að hér hefur komið fram vilji allra þingmanna til að gera betur í þessum efnum og taka velferð dýra alvarlega. Í stað þess að tala um skúrka í lokaorðum mínum eða þau tilfelli þar sem umhirða og umgengni við dýr er slæm langar mig að hnykkja á því, og vænti svara hjá hæstv. ráðherra þótt tíminn sé naumur, um hvernig við tökum á miklu stærra vandamáli á heimsvísu í þessum efnum sem er menningin í kringum dýr, þ.e. það sem ég nefndi í ræðu minni verksmiðjubúskap, sem er að mínu mati í eðli sínu kerfisbundin slæm meðferð á dýrum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Hvernig ætlum við að tryggja til frambúðar að sá búskapur fái ekki að byggjast upp á Íslandi? Hvernig ætlum við að taka á þeim tilfellum þar sem reyndin er sú nú þegar?

Tíminn er allt of naumur en mig langar einnig að nefna við hæstv. ráðherra, vegna þess að ég veit að hann hefur látið til sín taka á fyrri stigum í þeim efnum, umræðu er varðar sláturhús. Nú hefur þeim fækkað hérlendis sem þýðir að dýr eru flutt mun lengri vegalengdir en áður var, sem ýtir að sjálfsögðu undir hættuna á dauða eða lemstrun og sárindum í flutningum. Hvernig tryggjum við að tímanum sé á einhvern hátt snúið til baka, að þetta verði ekki áfram þróunin, sem og eftirlit við dauðastund í sláturhúsum, (Forseti hringir.) að aflífun dýra sé mannúðleg?

Að lokum vil ég segja að (Forseti hringir.) sá vilji sem hér kemur fram er mjög jákvæður en við verðum líka að muna að ef okkur er alvara í að (Forseti hringir.) setja þessi mál í forgang þarf líka að tryggja rekstrarfé (Forseti hringir.) og mannafla til þeirra stofnana sem eiga að sjá um þessi mál því að lagalegur bókstafur í (Forseti hringir.) þessum efnum er dauður ef ekki fylgir fé í verkið.