142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:22]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er vel til fundið að efna til þessarar umræðu 19. júní og ég þakka hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir ræður þeirra sem og forseta. Sannarlega mikilvægt verkefni sem erfitt hefur reynst að uppfylla þrátt fyrir góðan ásetning margra.

En hvernig stendur á því að við skulum þurfa að ræða þessi mál á 142. þingi og að við þurfum að setja það ákvæði í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar árið 2013 að launajafnrétti skuli ríkja í landinu? Við erum að taka við stjórnartaumum af stjórnmálaöflum sem voru oft með kvenfrelsi og jafnrétti á vörum en …

Einn af brautryðjendum okkar kvenna varðandi þetta málefni var Rannveig Þorsteinsdóttir, fyrrum þingmaður og lögfræðingur, og eins og hér hefur komið fram er baráttan fyrir launajafnrétti orðin mjög löng. Hún skrifar á 40 ára afmæli kosningaréttar í blaðið 19. júní árið 1955 og greinin heitir „Jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafn verðmæt störf“. Með leyfi forseta, langar mig að grípa niður í þessa stórmerku 60 ára gömlu grein:

„Launamismunurinn er víða falinn með því að störfum er skipt í karla- og kvennastörf og karlastörfin eru yfirleitt hærra launuð en kvennastörfin án tillits til þess hvaða verkhæfni þarf hjá þeim sem störfin vinna.“

Hún vitnar einnig til mannréttindaskrár Sameinuðu þjóðanna frá 1948 þar sem kveðið er á um að hver og einn eigi rétt til sömu launa fyrir sömu vinnu og Alþjóðavinnumálastofnunin gefur líka út árið 1951 jafnlaunasamþykkt þar sem hvatt er til að reglan um jöfn laun til kvenna og karla taki til alls starfsfólks. Það gekk nokkuð hægt hjá okkur að samþykkja þetta ákall en Rannveig er samt bjartsýn í lok greinarinnar, ef ég má vitna aftur í greinina:

„Launajafnréttið er á leiðinni. Það getur komist á innan lítils tíma og það getur líka átt nokkurn aðdraganda enn þá.“

Er ekki aðdragandinn orðinn nógu langur? Hefjumst handa.