142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræðurnar og það er ánægjulegt að heyra að við erum öll sammála um að kynbundinn launamunur sé óásættanlegur.

Ég var líka ánægð að heyra að ekki er um breytta stefnu að ræða frá þeirri sem fyrrverandi ríkisstjórn markaði varðandi jafnlaunamálin, en ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að taka pólitíska forustu í þessari ríkisstjórn til að eyða kynbundnum launamun hjá ríkinu.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra ræðuna en óska samt eftir skýrari svörum um jafnlaunaátakið á heilbrigðisstofnunum og hvort núverandi ríkisstjórn ætli ekki örugglega að klára það mál þannig að jafnt megi yfir alla ganga.

Ég tek undir það að mikilvægt er að bæta upplýsingar. Það er merkilegt að jafnréttislög kveða á um kyngreiningu upplýsinga en það er svo langt frá því að það sé veruleikinn hjá ríkinu.

Hæstv. ráðherra vísar í að stéttarfélögin þurfi að beita sér fyrir því að sérstök áhersla verði á hækkun launa í komandi kjarasamningum. Ég tek undir það en tel atvinnurekandann, ríkið, verða að leggja sérstaka áherslu á hækkun launa umönnunarstétta og annarra kvennastétta sem búa við þann nöturlega veruleika að þurfa að sætta sig við kynbundinn launamun. Þetta þurfa íslenskar konur langflestar að gera þrátt fyrir að í landinu séu skýr lög um að slíkt sé óheimilt.

Að lokum vil ég óska okkur öllum til hamingju með daginn og vona að að ári liðnu, þegar við ræðum kannski næst um kynbundinn launamun, höfum við þokast skrefi nær.