145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

101. mál
[14:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hér ágæta umræðu þó að ekki hafi margir tekið til máls og ætla að víkja að seinni ræðunni fyrst út af því hvernig hún endaði.

Það er alveg rétt sem þingmaðurinn gat um að ég mun leggja hér fram frumvarp og það sem er kannski einkennandi með þau frumvörp sem koma frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu þennan þingveturinn er utanumhald varðandi skipulag, að reyna að koma fram með ákveðin verkfæri. Innviðafrumvarpið mun koma fram á næstu dögum og ég tel afskaplega mikilvægt til verndar náttúru- og menningarverðmætum landsins að kortleggja það. Svo rétt sé til tekið munum við á vorþingi leggja fram frumvarp um haf- og strandsvæði. Það er líka kannski nútíminn og margt annað á undanförnum árum sem hefur verið að gerast varðandi þau svæði sem kallar enn frekar á að sú löggjöf verði sett. En fyrst og fremst er heildarstefnan lögð með landsskipulagsstefnunni sem við fjöllum um hér og munum svo þrengja það niður, og einn liðurinn eins og komið hefur fram í dag eru einmitt haf- og strandsvæði. Síðan munum við náttúrlega vinna það enn frekar, það er gríðarlega mikilvægt verkfæri. Við tölum hér stundum um að við séum að setja löggjöf sem við köllum verkfæri utan um ákveðin mál. Við tökumst oft mjög á um það hvernig þessi verkfæri okkar eiga síðan að virka, sem er nokkuð sérstakt en ég ætla ekki að fara mjög langt í það en hér hefur ramminn verið nefndur og þar kem ég að ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur.

Í mínum huga er ramminn, og ég hef margoft sagt það, mikilvægt verkfæri sem var búið til á Alþingi með það að leiðarljósi að reyna að finna einhvers konar jafnvægi á milli þessara tveggja flokka, að nýta auðlind okkar og síðan að vernda hana til þess að við tækjumst ekki eins heiftarlega á um þau mál. Einhvern veginn sýnist mér á öllu að það sé mjög erfitt að breyta þeim átakalínum eða þeim átökum þótt við höfum reynt að smíða þar ákveðið verkfæri.

Land er stöðugt að þróast og þess vegna er jafnvel landnotkun að breytast. Þessi nýi stóri atvinnuvegur okkar, ferðamennskan, hefur náttúrlega mjög mikil áhrif á land og þjóð, ekki síst hvernig við viljum hugsa um náttúru landsins.

Hér var getið um skipulagsmál og ég þakka það og það gleður alltaf mitt borgarfulltrúahjarta þegar verið er að hæla skipulagsmálum í Reykjavík. Skipulagsmál eru mjög spennandi og ekki hvað síst við að móta framtíð höfuðborgarinnar, ég finn enn fyrir því. Mig langar aðeins að segja frá því að sá aðili sem hafði kannski hvað mest áhrif fyrir um 100 árum á uppbyggingu Reykjavíkur, Guðmundur Hannesson, gaf út skipulagsbók sem verður 100 ára á næsta ári. Hann skipulagði meðal annars eða sagði til um Þingholtin sem er sennilega einhver þéttasta byggð í Reykjavík, en hann vildi endilega hafa byggðina samt þannig að menn gætu notið garðs og sólar. Við mættum kannski svolítið taka það upp, það þarf ekki að byggja bara upp í loftið til þess að þétta byggð. Það er líka hægt að byggja svolítið líkt því og Þingholtin voru skipulögð. Haldandi áfram með það þá man ég að á þeim tíma var líka dálítið velt vöngum í borginni um það hvort ætti að reyna að byggja blandað og mér sýnist að það sé svolítið komið í þá átt, alla vega fyrir gesti að hafa íbúð á efri hæð yfir verslunarmiðstöðvum eða verslunarhúsnæði.

Varðandi það að hafa vegalengdir stuttar þá er ég þannig þenkjandi að ég vil hvetja ágæta þingmenn sem hér hafa talað og eru á þeirri línu að hjálpa mér í því að við getum komið Sundabraut á. Ég held að hún sé gríðarlega mikilvæg til þess að stytta vegalengdir á milli borgarhluta.

Ég held ég þurfi ekki að segja mikið meira hérna, en ég þakka aftur fyrir umræðuna. Þingmennirnir sem hér hafa talað hafa farið nokkrum orðum um ósnortin víðerni og vilja búa til þjóðgarð á öllu miðhálendinu. Það er sjálfsagt að hugsa öll mál og ég er alveg tilbúin til þess af því að það var skorað á mig að gera það. En einhvern veginn er það nú þannig að menn vilja hvorki hafa í byggð né í óbyggð raflínur eða miklar vegalagningar eða einhver mikil stórvirki. En ég get ekki sagt að mér finnist betra að raflínur þveri búsældarlega dali ef hægt er að koma þeim fyrir í jaðri hálendis þar sem slík virki eru meira hulin. Þannig að mér finnst að þetta verði allt að skoðast, maður má ekki verða einstrengingslegur á einn eða annan hátt varðandi það hvar hlutunum er best fyrir komið. Það vildi ég hafa mín lokaorð.