145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[15:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um aukinn stuðning við móttöku flóttafólks. Ég er einmitt einn af meðflutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu sem gengur í meginatriðum út á það að Alþingi feli ríkisstjórninni að hefja þegar í stað undirbúning að móttöku flóttamanna, þ.e. kvótaflóttafólks.

Í þessari tillögu er lagt til að hér verði tekið á móti 500 manns á næstu þremur árum. Ég vil í upphafi segja að mér finnst hér vera um algera lágmarkstölu að ræða og tek því undir það sem hefur verið sagt að þetta eigi að vera grunnviðmiðið. Svo eigum við að gera stefnumörkun til enn lengri tíma þar sem við undirbúum að taka við enn fleira fólki.

Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í framsögu sinni með þessari þingsályktunartillögu að nú þyrftum við ekki að skipa nefndir eða halda fundi heldur væri komið að því að framkvæma. Ég tek svo sannarlega undir það. Fólk býr við skelfilegar aðstæður víðs vegar um heiminn og mér finnst þetta fólk eiga það skilið frá okkur sem búum við frið og öryggi í einu af ríkustu löndum heimsins að við tökum hratt, fast og örugglega á þessum málum og komum fólki til hjálpar nú þegar.

Í þessari tillögu er fyrst og fremst talað um kvótaflóttamenn en einnig um að stuðla að fjölskyldusameiningu. Ég tel það gríðarlega mikilvægt og held raunar að það sé jafnvel eitt af því sem væri auðveldast og hraðvirkast að gera. Hér er nú þegar talsverður hópur af til að mynda Sýrlendingum, fólki sem hefur verið hér um lengri eða skemmri tíma, og ef við mundum hreinlega byrja á fjölskyldusameiningu þessa fólks þá værum við þar með fólk sem væri með tengilið við íslenskt samfélag. Það ætti að vera auðveldara fyrir alla að aðlagast nýju landi og skapa sér lífsgrundvöll þegar einhver fjölskyldumeðlimur hefur svolitla þekkingu eða nasasjón af því hvernig íslenskt samfélag funkerar.

Ég átti fyrr í dag orðaskipti við hæstv. innanríkisráðherra vegna þess að í síðustu viku bárust fregnir af því að Útlendingastofnun hefði vísað úr landi nokkrum hælisleitendum frá Sýrlandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Um er að ræða fólk sem hefur komið hingað upp á eigin spýtur og fellur þess vegna ekki í hóp kvótaflóttamanna heldur hefur skilgreininguna hælisleitendur. Mér finnst mikilvægt að við veitum þessu fólki sem nú þegar er komið hingað hæli og leyfum því að vera hér og setjast að í samfélagi okkar en vísum því ekki til baka og notum Dyflinnarreglugerðina sem einhvers konar skálkaskjól til að gera það, enda er þar einungis um að ræða heimild til að senda fólk aftur til baka til þess lands sem það kom fyrst til á Schengen-svæðinu. Ég tel það ekki í anda þessarar reglugerðar eða þessa samkomulags að við sem búum hér í útkanti Evrópu notum landfræðilega einangrun okkar sem skálkaskjól til að taka ekki við hælisleitendum. Vegna þess gríðarlega fjölda fólks sem um er að ræða þá finnst mér við ekki mega einblína á einhverja tiltekna „kategoríu“ fólks. Þess vegna er mikilvægt að hugsa ekki bara um kvótaflóttamennina því að það eru svo sannanlega óskaplega margir aðrir í erfiðri stöðu. Þetta fólk er nú þegar komið hingað til okkar og við eigum þess vegna að leyfa því að vera.

Mér fannst þó gríðarlega jákvætt það sem hæstv. innanríkisráðherra sagði um að við sendum ekki lengur fólk til baka til landa eins og Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands þar sem er nú þegar gríðarlegur fjöldi flóttamanna en önnur Evrópulönd eru einnig að taka við gríðarlegum fjölda fólks. Á sama tíma vil ég líka segja að við megum heldur ekki bara einblína á þá sem nú þegar eru komnir til Evrópu. Það má alls ekki skilja orð mín á þann veg. Það er auðvitað hræðilegt ástand til að mynda í Líbanon og þess vegna þurfum við auðvitað líka að taka við kvótaflóttamönnum sem kæmu jafnvel fyrst og fremst þaðan.

Mér finnst líka mikilvægt að við höfum það í huga að langflestir vilja búa heima hjá sér. Fólk leggur ekkert á flótta nema vegna þess að það er í bráðri hættu. Bent hefur verið á að eitt af því sem veldur því að fólk yfirgefur heimili sín eru loftslagsbreytingar sem gera það að verkum að fólk flosnar upp frá heimilum sínum. Það er heldur ekki hægt að líta fram hjá því að meginþunginn er orðinn til vegna þess að við Íslendingar sem og aðrar vestrænar þjóðir höfum kynt undir stríðsátökum í fjarlægum löndum undanfarin ár og nú erum við að sjá afleiðingarnar af því hvað gerist þegar við förum með hernaði og sprengjum lönd í tætlur. Þá leggur fólk skiljanlega á flótta. Til að skapa ekki enn meiri vandamál til framtíðar þurfum við auðvitað að hætta að fara með hernaði á hendur öðrum þjóðum og búa þar af leiðandi ekki til sífellt nýja flóttamenn síðar meir. Um leið og við tökum á móti kvótaflóttamönnum finnst mér við þurfa að hafa orsökina í huga og líta einnig til þess að taka vel á móti þeim sem til okkar eru nú þegar komnir.

Þjóðin hefur sýnt vilja sinn í verki á vefmiðlum undanfarna daga og vikur. Það er alveg klárt að meginþorri Íslendinga vill taka við fólki og gera það vel og gera það hratt og er tilbúinn til að leggja fram krafta sína, vinnu og vera góðir gestgjafar sem leggja sitt af mörkum til að hjálpa fólki að aðlagast samfélaginu og vonandi einnig til að læra eitthvað nýtt um aðra menningarheima og kynnast fólkinu sem hingað kemur.

Mér þykir óskaplega dapurlegt hversu hægt gengur hjá hæstv. ríkisstjórn. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að vonandi fáum við góð tíðindi af ríkisstjórnarfundinum sem halda á í fyrramálið og að þar verði tekin fyrstu skrefin í því að fá hreinlega fólk hingað. Fyrsta skrefið gæti jafnvel verið að hætta að vísa fólkinu sem hingað er komið úr landi. (Forseti hringir.) Það er það sem við getum gert nú þegar, þ.e. leyft þeim (Forseti hringir.) sem hingað eru komnir að vera og svo byggjum við ofan á það.