148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:29]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka aftur svörin. Mér finnst það bara svo furðuleg rök að ekki eigi að koma til móts við þarfir Landspítalans út af því að þetta sé svo lítil upphæð. Ég hefði haldið að vegna þess að þetta er svo lítil upphæð væri einmitt svo auðvelt að koma til móts við þau, sérstaklega þegar þau segja hluti eins og „að halda sjó“. Að þetta sé bara það bráðnauðsynlegt inn í reksturinn að þau þurfi á þessu að halda bara til að halda sjó.

Þá spyr ég hvort ráðherra hefur einhverja ástæðu til að trúa ekki mati stjórnenda Landspítalans. Það er það sem mér finnst vera svo furðulegt í þessu. Í raun á ég persónulega ótrúlega erfitt með að ganga frá þessu fjárlagafrumvarpi nú fyrir áramót með áhyggjur af því að spítalinn fái ekki þá litlu upphæð sem hann þarf til að halda rekstrinum gangandi svo að ekki þurfi að reka fólk, svo að þetta fari ekki að bitna á sjúku fólki á Íslandi og fólki sem þarf á þessari þjónustu að halda.

Í fyrra andsvari heyrðist mér hæstv. ráðherra segja að þau væru tilbúin til að bregðast við vanda. Ég vona svo innilega að það sé að fara að gerast. En ég held að það sé ofboðslega mikil þörf á að við bregðumst við þessu og komum til móts við spítalann um þá litlu upphæð sem verið er að biðja um. Ég tek mark á stjórnendum Landspítalans. Ef þau segja að þau þurfi þessa upphæð til að halda rekstrinum gangandi held ég að það hljóti bara að vera rétt.