148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þessi ræða bara nokkuð góð og ekkert vandræðaleg þannig að ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hana. Og ég vil líka þakka þingflokki Pírata fyrir að taka slaginn fyrir Landspítalann og gera það ítrekað. Það skiptir mjög miklu máli fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi að við gleymum því aldrei að bakland íslenskrar heilbrigðisþjónustu endar alltaf þar. Þó að við höfum stundum tilhneigingu til að tala um Landspítalann eins og hann sé héraðssjúkrahús fyrir Reykjavík þá er hann það ekki. Hann sinnir auðvitað því sem út af stendur þegar heimahagarnir geta ekki klárað heilbrigðisþjónustuna fyrir viðkomandi einstakling.

Ég vil þakka sérstaklega fyrir það því að ég hef stundum hugsað um það sem þingmaður Reykjavíkur að það sé næstum því þannig að það megi ekki tala um stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að ég fagna liðsaukanum í hollvinasamtökum Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Það er hárrétt að heilbrigðisþjónustan lagði rosalega mikið á sig, eins og öll opinber þjónusta, í kjölfarið á efnahagshruninu. Allir hlupu hraðar fyrir minni peninga og gerðu meira fyrir minni peninga. Svo sjá allir hina efnahagslegu uppsveiflu og segja: Hvar er þessi uppsveifla hjá okkur? Hún skilar sér ekki til okkar. Því að í aðdraganda hrunsins var líka um að ræða niðurskurð á Landspítalanum, eins og við þekkjum. Það var langur aðdragandi.

Mér finnst þess vegna mjög mikilvægt að snúa vörn í sókn. Ég hef tekið slaginn fyrir heilbrigðiskerfið á þessum þremur vikum sem ég hef verið heilbrigðisráðherra og mun gera það áfram. En ég vil samt spyrja: Er til eitthvað sem heitir fullfjármagnað heilbrigðiskerfi? Er það til? Ég er ekki alveg viss um það. En ég vil ekki tala um muninn á árangri og uppgjöf. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að ef Landspítalinn lendir í vandræðum á árinu komum við til móts við það og finnum út úr því. Það er auðvitað eina leiðin (Forseti hringir.) því að Landspítalinn er slíkt grundvallartæki í heilbrigðiskerfi okkar að annað verður ekki þolað.